144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[14:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að þingheimur átti sig á því að verið er að búa til tvöfalt kerfi undir þeim formerkjum að hér sé um skilvirkara og hagkvæmara fyrirkomulag að ræða að því er varðar ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda í C-flokki. Verið er að búa til tvöfalt kerfi þannig að í stað þess að Skipulagsstofnun sjái um þessar ákvarðanir þá sjá sveitarfélögin um ákvarðanirnar, en Skipulagsstofnun verður eftir sem áður bæði að gefa út leiðbeiningar og hafa eftirlit með þessum ákvörðunum.

Hér erum við því í raun að tala um fyrirkomulag sem flækir þessa verkferla, gerir þá óskilvirkari og óhagkvæmari. Ég hvet þingheim til þess að endurskoða afstöðu sína til þessarar hógværu og vel ígrunduðu breytingartillögu.