144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[14:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mín eindregna skoðun að ríkið eigi að kosta námsgögn en það togast hins vegar á við hitt, að einhvers staðar þarf að byrja innleiðingu á rafrænum námsgögnum. Eins og er er ófremdarástand á markaði framhaldsskólagagna. Það er ekki eins og að hlutirnir séu góðir eins og þeir eru núna. Stundum er sagt að maður eigi ekki að taka versta kostinn fram yfir þann næstbesta þannig að þótt ég sé ósáttur við þá tilhugsun að það verði meginreglan að nemendur eigi að borga öll skólagögn þá er tilfellið að það er þannig núna. Kostnaðurinn er hvort sem er á nemendum eins og er og þótt ég vilji breyta því þá togast þetta á í mér því að við verðum að taka upp rafræn skólagögn.

Sú ágiskun kom fram í nefnd að nemendur gætu sparað allt að 30% af námsgagnakostnaði. Það er engin staðfesting á þessu þannig að ég legg til að við fylgjumst mjög vel með framþróun þessa máls. Ég sit hjá í þetta skiptið og áskil mér fullan rétt til þess að endurskoða afstöðu mína við 3. umr.