144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

Fyrir skemmstu mælti hv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Í því frumvarpi, sem er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, er gert ráð fyrir ýmsum breytingum á lögunum sem lúta að almennum ákvæðum, formi laganna og stjórnsýslu. Málið er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd en ljóst þykir að ekki mun nást að afgreiða frumvarpið fyrir næstu áramót eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Að stærstum hluta kemur það ekki að sök. Ég geri ráð fyrir að velferðarnefnd muni leggja til breytingu hvað varðar gildistöku laganna þannig að þau öðlist gildi á næsta ári. Aftur á móti er einn þáttur í því frumvarpi sem ekki er hægt að fresta að ræða. Sá þáttur varðar svokallaðar víxlverkanir í samspili og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkubóta almannatrygginga. Víxlverkanir þessar lýsa sér þannig að greiðslur úr lífeyrissjóðum skerða örorkubætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð.

Í samþykktum lífeyrissjóða er síðan kveðið á um að heildartekjur örorkulífeyrisþega eftir orkutap mega ekki vera hærri en þær tekjur sem hann hafði fyrir orkutap. Þegar lífeyrissjóðir gera samanburð á tekjum öryrkja fyrir og eftir orkutap reikna þeir m.a. með bótum almannatrygginga. Það hefur þau áhrif að ef bætur almannatrygginga hækka þá lækka lífeyrissjóðirnir í mörgum tilfellum örorkulífeyrisgreiðslur sínar á móti þeirri hækkun þar sem tekjur öryrkjans, að meðtöldum bótum almannatrygginga, eru orðnar hærri en þær voru áður en viðkomandi varð öryrki. Við þá lækkun hækka bætur almannatrygginga sem aftur leiðir til lækkunar lífeyrissjóðsgreiðslna.

Hið sama gerist ef greiðslur örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum hækka því að þá lækka bætur almannatrygginga, sem getur síðan leitt til frekari hækkunar frá lífeyrissjóði og svo koll af kolli.

Með lögum nr. 106/2011, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem samþykkt voru í september 2011, var tímabundið komið í veg fyrir víxlverkun í samspili örorkubóta almannatrygginga og lífeyrissjóða. Voru lögin sett í kjölfar yfirlýsinga stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun og örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum og hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum. Kom það fram að þess væri vænst að fyrir árslok 2013 yrði endurskoðun á sambandi og samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga lokið og að sú vinna mundi leiða fram lausn á víxlverkan örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Þeirri vinnu er hins vegar ekki lokið og því er nauðsynlegt að bregðast við með einum eða öðrum hætti til að koma í veg fyrir að víxlverkun hefjist að nýju.

Brýn þörf er á því að samþykkja það frumvarp sem hér er til umræðu fyrir áramót. Bráðabirgðaákvæði runnu út um síðustu áramót og þar sem ekki hefur fundist varanleg lausn á vandamálinu í samspili þessara tveggja meginstoða lífeyristrygginga á Íslandi þarf að bregðast við því. Að öðrum kosti munu þessar víxlverkanir hefjast að nýju sem hefur sérstaklega neikvæð áhrif á þá sem greiðslurnar þiggja, þ.e. öryrkja.

Varanleg lausn á þessu vandamáli mun vonandi birtast okkur í niðurstöðum þeirrar nefndar sem er að endurskoða almannatryggingalögin og hv. þm. Pétur H. Blöndal stýrir. Þar er m.a. verið að skoða það hvernig við getum tekið starfsgetumat í stað örorkumats og um leið breytt því bótakerfi sem við búum við í dag til einföldunar. Einn þátturinn í þeirri vinnu er einmitt að útiloka að öryrkjar þurfi að búa við slíkt regluverk sem veldur þessum víxlverkunum

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr.