144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir ræðuna. Hér er verið að skerða kjör öryrkja enn um hálfan milljarð, en það er ekki á ábyrgð framsögumannsins heldur hæstv. ráðherra. Við munum ræða það við hann síðar undir þessari umræðu.

Ég vildi hins vegar beina því til varaformanns nefndarinnar að nefndin skoði sérstaklega í umfjöllun sinni um málið það þak sem hún vísar til, að öryrki megi ekki hafa hærri bætur en tekjurnar voru þegar hann varð öryrki. Það er sennilega það ósanngjarnasta í lífeyriskerfi okkar landsmanna vegna þess að sá framreikningur er gerður á grundvelli neysluvísitölu. Þakið sem öryrkinn þarf að búa við eru launin eins og þau voru þegar hann varð öryrki. Það er allt í lagi í eitt, tvö, þrjú ár, en yfir langan tíma hækka laun meira en verðbólgan er. Kaupið hækkar 2–3% meira á ári, 20–30% meira á hverjum tíu árum. Það þýðir að það þak sem öryrkinn rekst upp undir, þ.e. launin sem hann var með þegar hann varð öryrki, lækkar í raun og veru sífellt ár frá ári í samanburði við aðra. Ég held að það sé einfaldast að lýsa því þannig fyrir þingmönnum að það er líkt og launaþak væri á Alþingi sem miðað væri við launin eins og þau voru á Alþingi árið 1974. Það er eins og menn mundu horfa á kaupmáttinn fyrir þingmenn 2014 eins og kaupmáttur þingmanna var 1974. Og alltaf þegar laun þingmanna færu upp fyrir þau laun sem þeir höfðu 1974 væri það sem umfram er tekið af þeim vegna þess að allt væri miðað út frá neyslunni eins og hún var 1974. Það er hlutskipti þess sem varð öryrki 1974 og er enn á bótum. Það er allt tekið af honum umfram það sem hann var með í laun árið 1974. Við þekkjum það öll og vitum að heimilin í dag hafa ekki sömu þarfir og þau höfðu 1974. Þess vegna er svo ósegjanlega (Forseti hringir.) óréttlátt að halda þessu þaki svona yfir öryrkjum áratugum saman.