144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór í gegnum í fyrra andsvari mínu er alveg skýrt hvað það var nákvæmlega sem var lofað varðandi bætur almannatrygginga. Við það hefur verið staðið. Það hefur líka komið fram í svörum til þingmanna, bæði þar sem verið er að bera saman verðlagsþróun og launaþróun, að við erum að greiða meira inn í almannatryggingakerfið núna, jafnvel þótt þessar tölur séu skoðaðar og fjölgun lífeyrisþega einnig tekin til hliðar.

Það endurspeglast náttúrlega í þeim tölum sem ég var að tala um, annars vegar þá 13% félagslega aðstoðin og hins vegar um 20% vegna lífeyrisgreiðslna eða lífeyristrygginganna. Ég held því að það sé alveg ljóst að við höfum verið að gera betur. En við þekkjum líka að þarna eru hópar sem eru ekki með neinar aðrar greiðslur en frá almannatryggingum. Ég held að það sé almenn samstaða í þinginu og þingmenn geta treyst á að það gildir sem var nefnt hér, það gildir um ríkisstjórnina og stjórnarflokkana og stjórnarandstöðuna að menn vilja gera betur, það er verið að huga að því.

Ég hef hins vegar einnig bent á að það er fólk sem fær greiðslur úr almannatryggingum og segir sjálft að það nái endum saman og telur sig hafa það þokkalegt. Það sem ég hef lagt áherslu á er að huga að þeim sem eru með minnst á milli handanna og þar kemur að húsnæðiskostnaðinum, ekki beint að greiðslum sem koma í gegnum almannatryggingar heldur hvernig við getum náð húsnæðiskostnaðinum niður. Þess vegna hef ég lagt mjög mikla áherslu á húsnæðismálin og hef saknað þess, ég skal alveg viðurkenna það, t.d. í þeim ályktunum sem hafa verið að koma núna frá Öryrkjabandalaginu til okkar þingmanna og ríkisstjórnarinnar að ekki sé meira rætt um mikilvægi þess að ná niður húsnæðiskostnaði fyrir þennan hóp.