144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra ræðuna. Síðan ætla ég að lýsa því yfir að ég sakna þess að hv. þm. Pétur Blöndal, sem var svo óskaplega glaður hérna áðan, skuli ekki vera með okkur. Þá talaði hann um að lækka skatta en nú talar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um að ríkissjóður spari sér á því að framlengja ekki samkomulagið. Sparar sér þá til að eiga fyrir skattalækkununum. Það er ágætt að ekki þarf að líða langur tími þar til að förum að sjá það. Auðvitað er það þannig að skattalækkanirnar sem við vinstri menn erum sökuð um að vilja alls ekki, sem er rangt, þarf að hafa þannig að ekki sé verið að gera þær á kostnað einhverra sem síst skyldi.

Nú er ég eiginlega komin í ræðu, herra forseti. Það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um er að hún vísar einmitt í vinnu nefndar hv. þm. Péturs Blöndals. Er það í þeirri vinnu sem á að leysa framtíðarskipulagið í þessum málum? Ef ekki, hvernig ætlar hún þá að láta vinna fyrirkomulagið á þessu til framtíðar? Ef það er í nefnd hv. þm. Péturs Blöndals þá ætla ég að segja, og það er ekki last á hv. þingmann, að hann er búinn að vera í nefnd um þessi mál í sirka tíu ár ásamt ýmsum öðrum. Og þetta frumvarp er alvörumál. Í stað þess að framlengja samkomulag sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði á einum erfiðustu tímum í ríkisfjármálunum árið 2010 þá á hér að snuða þennan hóp um hundruð milljarða. Hvaða vinnu er hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra með í gangi út af þessu?