144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir getum verið sammála um að það hefði náttúrlega verið langbest ef tillaga hefði verið komin að framtíðarlausn. Það hefði mátt finna hana í því frumvarpi sem lagt var fram fyrir kosningar varðandi breytingar á almannatryggingunum. En það var ekki svo, og er verið að vinna að þessu.

Eins og ég nefndi í ræðu minni er verið að vinna að endurskoðun almannatryggingakerfisins í nefnd sem hv. þm. Pétur Blöndal stýrir. Ég held að það sé einmitt ómetanlegt fyrir okkur að hafa einstakling sem þekkir kerfið vel í þeirri vinnu. Ég tók sérstaklega fram að ég vildi að lagðar yrðu til tillögur um það hvernig við getum tekið upp starfsgetumat í staðinn fyrir núgildandi örorkumat. Ekki hefur náðst samkomulag í nefndinni enn þá. Ég vonast til þess, eins og ég sagði í ræðu minni, að það samkomulag birtist eftir áramótin og niðurstaða varðandi þá vinnu.

Þá er líka horft til samspils almannatrygginga og lífeyrissjóða í nefndinni og þar með þeirra víxlverkana sem hér um ræðir. Með því að fara yfir í starfsgetumat þá erum við einmitt að tala um að stokka hlutina upp. Við erum að breyta frá því sem við vorum að ræða hér, til dæmis þá nálgun sem hv. þm. Helgi Hjörvar fór í gegnum, hvernig lífeyrissjóðirnir hafa nálgast hið svokallaða orkutap hjá sér, og það mun þá leiða til þess að þetta greiðslukerfi eða bótakerfi sem við búum við í dag verður stokkað upp og líklega verða fundnar lausnir — og það er það sem ég legg áherslu á — til framtíðar varðandi samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða.

Ég nefndi líka þá leið sem var meðal annars skoðuð af starfshópnum varðandi það að lífeyrissjóðunum verði gert óheimilt að líta til greiðslu almannatrygginga við tekjuathugun vegna lífeyrisgreiðslna, að þar væri náttúrlega um ákveðna framtíðarlausn að ræða. En menn hafa bent á að ákveðnir gallar séu á henni, sem ég fór líka í gegnum, og þeir hafa kveinkað sér mjög undan því (Forseti hringir.) að eitthvað sé verið að hnika þessu til hjá þeim.