144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi umræðuna um þetta, hvernig þetta var afgreitt í nefndinni og hvaða stöðu við vorum í þar — ég sagði það raunar hér áðan í andsvari, og tek það fram aftur, að velferðarnefnd var samdóma um að ekki væri hægt að láta víxlverkanirnar koma til framkvæmda aftur. Ákvæðið rann út og við erum gagnrýnin á það — af hverju var þá ekki búið að framlengja það frá síðustu áramótum? Vandamálið kom strax upp hjá nýrri ríkisstjórn. Það er hægt að skamma okkur fyrir að hafa ekki verið búin að framlengja það en á sama tíma er alltaf verið að skamma okkur fyrir að hafa tekið ákvarðanir fyrir nýju ríkisstjórnina sem hún hafi svo þurft að hreinsa út, þannig að ég held að við ættum ekki að togast á um það.

Alla vega er augljóst að kvartað var við ráðherra fyrir meira en ári, að þarna þyrfti að taka til hendinni. Það tók meira en ár, þannig að við sitjum uppi með vandamálið og áttum þrjá kosti. Það var í fyrsta lagi að gera ekki neitt og leyfa víxlverkanir. Ég vil segja það hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni til hróss að hann var einn af þeim í velferðarnefnd, og allir þar voru sammála um það, sem taldi að það kæmi ekki til greina.

Valkostur tvö var að framlengja samkomulagið óbreytt og það var greinilegt að mönnum fannst það of dýrt og það hefur ýmsa ókosti þó að það mundi þýða að 1,1 milljarður færi til öryrkja.

Í þriðja lagi að finna og fara eftir nýrri reglu sem búið var að leggja fram en engin tækifæri til að skoða nákvæmlega og fá umsagnir um á þeim tíma sem við höfðum í þinginu. Það er sú aðferð sem verið er að leggja til af meiri hluta nefndarinnar og um það deilum við. Við getum svo rifist um hvort verið sé að skerða eða bæta við. Ósk okkar er um að víxlverkunarsamningurinn haldi áfram þar til búið er að finna varanlega lausn, og að við getum svo togast á um það. Þá hefðu öryrkjar fengið 1,1 milljarð eða 1.100 miljónir og ég get ekki litið á það öðruvísi en svo að við séum að hafa af þeim með því að fara millileið til að hlífa ríkissjóði. Það er engin ástæða til þess miðað við þær umræður sem hafa átt sér stað hér um stórbætta stöðu ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Menn hafa verið að deila út milljörðum á undanförnum dögum og þetta er ekki hópurinn sem átti ekki að fá sitt, ekki öryrkjar.