144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:55]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir það að við vorum öll sammála um það í nefndinni að við yrðum að bregðast við. Það er enginn vafi á því. Og af hverju erum við að skamma ykkur? Ég veit ekki til þess að við séum að skamma einn né neinn. Það er sjálfsagt við okkur að sakast, stjórnarmeirihlutann, að vera ekki búin að breyta þessu í tíma, vel má færa rök fyrir því. En við vinnum í því umhverfi að þetta kemur það seint, menn hafa kannski ekki áttað sig á þessu fyrr. Ábendingarnar hafa kannski ekki komið nógu tímanlega. Menn hafa bara ekki kveikt á perunni hvar í flokki eða hvar í þjóðfélaginu sem þeir standa.

Þessi aðgerð núna, að tryggja að greiðslur til öryrkja skerðist ekki um 500 milljónir, það eru fjárheimildir fyrir því í fjárlögum. Ég veit ekki hvort við höfum yfir höfuð vald til þess eða hvaða þýðingu það hefði að hafa það 1 milljarð eða 2 milljarða, þó að öll viljum við öryrkjum og lífeyrisþegum vel. Það væri voða ljúft. En til þess þurfum við að hafa heimildir í fjárlögum og því miður eru þær ekki hærri í þessum fjárlögum. Við verðum bara að hafa trú á því kerfi sem tekur við — ég á von á því að nefnd hv. þm. Péturs H. Blöndals verði með lausn á þessu máli.