144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Nefndarálit ásamt breytingartillögu er að finna á þskj. 717 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir álitið frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði þess.

Málið var lagt fram þann 27. nóvember og var rætt á Alþingi 10. desember. Efnahags- og viðskiptanefnd fékk málið til umfjöllunar og fékk á sinn fund fulltrúa frá ríkisskattstjóra, Rannís, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Ein umsögn barst. Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka gestum fyrir framlag þeirra.

Frumvarpið felur í sér tillögu um framlengingu gildistíma laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þá felur frumvarpið í sér tillögur um samræmingu ákvæða laganna að ákvæðum nýlegrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) um almenna hópundanþágu. Þar að auki felur frumvarpið í sér tillögur sem ætlað er að auka skilvirkni í málsmeðferð ríkisskattstjóra og Rannís auk þess sem lögð er til lagfæring á orðalagi.

Í 1. gr. frumvarpsins er meðal annars lagt til að fyrirtæki sem eiga í fjárhagsvanda falli utan gildissviðs laganna. Á fundi nefndarinnar kom það sjónarmið fram að óljóst væri hvað orðalagið „fyrirtæki í fjárhagsvanda“ fæli í sér. Var m.a. bent á að nýsköpunarfyrirtæki væru oft lítil og veikburða á upphafsárum sínum og í vissum skilningi væru mörg þeirra þegar í fjárhagsvanda þar sem þau væru rekin með tapi og eiginfjárstaða þeirra væri ekki burðug fyrst um sinn. Þrátt fyrir það gætu þau verið lífvænleg. Að mati nefndarinnar þarf að gæta þess við setningu reglugerðar að afmörkun „fyrirtækis í fjárhagsvanda“, eins og það verður skilgreint, leiði ekki til þess að óburðug en lífvænleg nýsköpunarfyrirtæki fari á mis við þennan stuðnings.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að einnar millj. kr. lágmark rannsóknar- og þróunarkostnaðar á tólf mánaða tímabili verði hækkað í 5 millj. kr. Fyrir nefndinni komu fram efasemdir um að hækkun lágmarksins væri æskileg. Framkvæmdin hefði gengið vel til þessa og almenn ánægja ríkti um núverandi fyrirkomulag. Gildandi lágmark hafi ekki reynst skapa vandamál. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að styðja við smá þróunarverkefni ekki síður en stór, og því leggur nefndin til að 4. gr. frumvarpsins falli brott og lágmarksfjárhæð verði áfram 1 millj. kr.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem fram kemur á þingskjalinu.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður, frsm., Pétur H. Blöndal, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Vilhjálmur Bjarnason.