144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[16:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig óneitanlega þegar stjórnarandstöðuþingmenn, jafnvel þeir sem ganga stundum mjög hart fram í gagnrýni, koma hér upp og hrósa fyrir vel unnin störf.

Það sem ég vildi gera var að vekja athygli á því að á sínum tíma þegar frumvarpið kom fram var ég hissa á því að menn skyldu ekki bara hafa samþykkt frumvarpið sem ég lagði fram, ég lagði það fram ítrekað; 2007, 2008 og árið 2009. Það hefði verið góður bragur á því að taka frumvarp frá stjórnarandstöðuþingmanni og samþykkja það á Alþingi. En stundum vilja ríkisstjórnir koma fram með eigin frumvörp og það er bara eins og það er. Þetta er söguskýring sem ég vildi sérstaklega benda á og ég veit að hún gleður hv þingmann jafnmikið og það gleður mig að hann skuli koma hér upp og fagna þessu máli.

Mér þótti gaman að heyra að hv. þingmaður hefði fengið þessa þingsályktunartillögu samþykkta vegna þess að þegar ég lagði málið fram árið 2007 fannst mér engin umræða vera um það. Mér er það sérstaklega minnisstætt vegna þess að mér fannst það vera algjört forgangsatriði, alveg sama í hvaða flokki menn voru. Þá sat ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, ríkisstjórn sem vildi allt fyrir alla gera og jók ríkisútgjöldin um ein 20%, að mig minnir, sem ég held að sagan muni nú dæma sem einhver verstu hagstjórnarmistök sögunnar. Það setti olíu á eldinn í verðbólguskoti og olli þenslu sem á sér vart hliðstæðu í sögunni. (Forseti hringir.) En ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa góðu ræðu. Ég mundi gjarnan vilja heyra fleiri slíkar frá hv. þingmanni.