144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að það liggi fyrir að nefndin taki málið aftur til skoðunar eins og ég óskaði eftir og gefi sveitarfélögunum færi á því að koma að því.

Þær röksemdir sem ég fæ ekki alveg til að ganga upp eru þær að nefndin leggi til þessa breytingu á frumvarpinu vegna þess að hún vilji ekki taka mjög stóra ákvörðun um ráðstöfun þessara fjármuna. Mér finnst nefndin einmitt vera að leggja til stóra ákvörðun. Það finnst mér vera hið stóra í málinu, að leggja til að ýta til hliðar niðurstöðunni úr samráði ríkis og sveitarfélaga um þetta mál. Það finnst mér vera stór ákvörðun. Hitt, að samþykkja bara frumvarpið, samþykkja bara niðurstöðuna sem orðin var í samskiptum þessara aðila, hef ég ekki talið stóra ákvörðun, alveg þvert á móti og í raun og veru það sem ég hefði átt von á, þ.e. að einfaldlega yrði lagt til að niðurstaðan úr samskiptum ríkis- og sveitarfélaga um þetta mál næði hér fram að ganga.

Ég tel það þvert á móti snúa þannig að það sé stór ákvörðun að leggja til að sú niðurstaða haldi ekki. Auk þess er það þannig að við óvenjulegar aðstæður og þegar sérstök mál eiga í hlut væri það ekkert nýtt fordæmi þó að fjármunum í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga væri ráðstafað með einhverjum öðrum hætti en í gegnum jöfnunarfyrirkomulag jöfnunarsjóðs. Það þekki ég mjög vel. Menn hafa oft samið um hluti þar sem þeir hafa miðað við það að ríkið tæki þátt í kostnaði sveitarfélaganna eins og hann fellur til og raunverulega er innan hvers sveitarfélags en ekki í gegnum tekjuöflunarkerfið. Þar má nefna framlag ríkisins inn í sérstakar húsaleigubætur eða hvað það nú er. Að sjálfsögðu dettur engum í hug að það fari til sveitarfélaganna í gegnum hinn hefðbundna farveg heldur er það til að mæta kostnaði eins og hann fellur til. Með nákvæmlega sama hætti má gagnálykta og segja að þegar sveitarfélögin verða fyrir útgjöldum eða tekjutapi þá kemur auðvitað til greina ef einhverjar sérstakar ráðstafnir eru uppi að líta til sérreglna um meðferð þeirra fjármuna.

Ég minnist þess þegar verið var að hækka tryggingagjald á sínum tíma og sveitarfélögin kvörtuðu mjög undan þeim útgjaldaauka sem það yrði fyrir þau innan ársins, þá féllst ríkið á að endurgreiða sveitarfélögunum þann kostnað og tók á sig tryggingagjaldshækkunina gagnvart sveitarfélögunum af heilu ári til þess að tryggja framgang kjarasamninga. Þá var það að sjálfsögðu gert þannig að útlagður kostnaður sveitarfélaganna hvers um sig var áætlaður vegna hærra (Forseti hringir.) tryggingagjalds sem notað var sem viðmiðun en ekki eitthvað annað.

(Forseti (ÞorS): Forseti vill taka fram að klukka gekk ekki í borðinu meðan á andsvari stóð en forseti fylgdist mjög gaumgæfilega með tímanum.)