144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti skilið það betur að menn hefðu áhyggjur af þessu tagi ef hér væri á ferðinni ótímabundin og einhver varanleg breyting á grunnreglum jöfnunarsjóðs sem menn hefðu áhyggjur af að væri fordæmi um eitthvað sem gæti í fyllingu tímans dregið úr gildi jöfnunarsjóðs sem tekjujöfnunartækis og aðstöðujöfnunartækis milli sveitarfélaganna. Nú háttar svo til að hér er verið að takast á við tímabundin áhrif í þrjú eða þrjú og hálft ár, sem leiða af þessari sérstöku aðgerð ríkisstjórnarinnar … (HöskÞ: Lengra en það.) Nei, hér er fyrst og fremst verið að horfa á tekjutapið á þeim árum sem mönnum stendur opið að nota séreignarsparnað skattfrjálst í til að greiða inn á lán eða byggja upp húsnæðissparnað, það er alveg ljóst. Það er tímabilið frá miðju ári 2014 og fram á mitt ár 2017 sem hér er undir og útreikningar á kostnaði og annað í þeim dúr er allt grundað á því.

Ég sé því ekki að það séu einhverjar hættur samfara því að þó að niðurstaða ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga næði hér fram að ganga, að með því væri skapað eitthvert hættulegt fordæmi fyrir sjálfa grundvallarhugsunina um jöfnunarsjóð einfaldlega vegna þess að þetta mál á allt saman rót sína að rekja til þessara sérstöku aðstæðna og þessa sérstaka tímabils sem í hönd fer. Ég benti á að ekki væri verið að gera minnstu tilraun til þess að bæta sveitarfélögunum framtíðartekjutap þeirra. Þetta eru eingöngu minni útsvarstekjur beint á þessum tíma sem áætlað er að verði rétt tæpir 4 milljarðar kr. Upp í það fengju þau með þessum hætti 2,4 milljarða af sínum eigin tekjum. (Forseti hringir.) Það er þannig sem það er.