144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hafa hvorki beint verið miklar umræður um það í þinginu með hvaða hætti þessi ríkisstjórn ætlar að fara í afnám hafta né hvaða aðferðafræði eigi að beita varðandi uppgjör á þrotabúum föllnu bankanna. Hins vegar fáum við töluvert af fréttum af því úr fjölmiðlum hvernig á að gera þetta, kannski ekki síst úr Morgunblaðinu. Það sem þar er að frétta virðist kannski helst það að menn séu enn að vinna með sömu hugmyndir og tillögur og unnið var með af fyrrverandi ríkisstjórn og jafnvel enn lengra aftur en það.

Eitt af því sem fréttir hafa verið fluttar af er að ætlunin sé að setja útgönguskatt á flæði fjármagns út úr landinu. Því hljóta margar spurningar að vakna og kannski ekki síst í ljósi þess að fréttir í Morgunblaðinu herma, samkvæmt öruggum heimildum þess, að þetta þýði að það þurfi að setja þetta á allt útflæði fjármagns hvort sem í hlut eiga innlendir aðilar eða erlendir. Þess vegna langar mig að velta upp við hæstv. fjármálaráðherra þeirri spurningu hvaða áhrif svona útgönguskattur geti haft á íslenskt efnahagslíf ef þetta er sett á allt útflæði fjármagns og líka á innlenda lögaðila. Hann veit eins og við að fram undan eru mjög stórir gjalddagar hjá orkufyrirtækjunum, t.d. Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Því vil ég spyrja hann: Hvaða áhrif mun svona útgönguskattur hafa á afborganir þessara fyrirtækja af sínum erlendu skuldum? Það er einn af afar stórum þáttum í áhættumati og getur haft hér gríðarmikil áhrif og skapað þrýsting á útflæði fjármagns á komandi árum.