144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

læknadeilan og laun lækna.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hverju það á að skila að tína hér eitthvað til upp úr launatöflunum. Staðan er þessi: Ef gengið verður að kröfum lækna eins og þær hafa birst á 30 samninganefndarfundum mun launakostnaður ríkisins hækka um 50%. Það er bara staðan. Launakostnaður ríkisins mun hækka um 50%. Það væri betra að tala um vinnufyrirkomulagið og þann vanda sem hv. þingmaður bendir á, að dagvinnuhluti launa lækna er lágur og það er ekki mikill hvati fyrir unglækna að koma heim. Við deilum áhyggjum af þessu en ekki er hægt að rísa hér upp í umræðunni og segja ríkið bera eitt ábyrgð á þessu öllu saman. Menn hafa samið svona yfir tíma, læknar verða að deila ábyrgð á kjarasamningunum eins og þeir eru núna með ríkinu. Við erum svo sannarlega tilbúin til að ræða breytingar á þessu en við getum ekki gengið að kröfum sem hækka launakostnað ríkisins um 50%. Við getum bara ekki gert það.