144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

framkvæmd þingsályktunar um tjáningar- og upplýsingafrelsi.

[10:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Minni hlutinn gerði það að tillögu sinni við fjárlagafrumvarpið sem verður væntanlega afgreitt á morgun að leggja til fjármagn til að fylgja eftir þingsályktunartillögu sem samþykkt var með 50 atkvæðum gegn engu árið 2010, en það var þingsályktun um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Við umfjöllun tillögunnar komst fjárlaganefnd hins vegar að þeirri niðurstöðu að í menntamálaráðuneytinu væri nægt fjármagn til að sinna verkefninu án þess að það væri sérstaklega tilgreint í fjárlögum. Hins vegar kom fram í bréfi sem menntamálaráðherra sendi hv. allsherjar- og menntamálanefnd á líðandi ári að ástæður þess að verkefnið væri í raun í frosti í ráðuneytinu væri fjárskortur. Þess má geta að breytingartillaga minni hlutans var viðbragð við þeirri ábendingu hæstv. ráðherra. Því spyr ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Er sá skilningur fjárlaganefndar réttur að verkefninu sé hægt að sinna án þess að það sé tilgreint sérstaklega með breytingartillögu í þeim fjárlögum sem við afgreiðum á morgun?