144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

málefni Bankasýslunnar.

[11:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna að sjálfsögðu því sem hæstv. ráðherra upplýsir um, að ekki standi til að hverfa algjörlega í gamla farið og það eigi að reyna að búa um þetta í einhverri sjálfstæðri einingu, þá væntanlega innan fjármálaráðuneytisins, þannig að armslengdarsjónarmiða sé gætt. Mér finnst það samt skrýtin vinna sem hefur staðið yfir allt þetta ár og skilar engri niðurstöðu. Við erum að detta inn í lokaafgreiðslu fjárlaga og ég tel fullkomlega óeðlilegt að þá séu ekki að minnsta kostir einhverjar fjárheimildir í fjárlögum næsta árs til reksturs Bankasýslunnar inn á næsta ár þangað til hæstv. ráðherra er búinn að leggja fyrir Alþingi tillögur sínar um nýskipan þessara mála og Alþingi búið að samþykkja þær. Sterk sjónarmið mæla með því að það sé ótímabært að leggja starfsemi Bankasýslunnar niður vegna þess að hún er í miðjum klíðum með mjög mörg veigamikil verkefni. Þar hefur byggst upp þekking varðandi rekstur bankakerfisins, endurskipulagningu sparisjóðanna, undirbúning undir söluferli og annað í þeim dúr. Það er ekki trúverðugt að koma svona seint á árinu fram með munnlegar (Forseti hringir.) skýringar af þessu tagi þegar við höfum ekkert annað í höndunum (Forseti hringir.) en það að Bankasýslan á ekki að vera til í fjárlögum næsta árs.