144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, brottfall laga um vörugjald og breytingu á lögum um tekjuskatt. Um er að ræða leiðréttingu á heiti frumvarpsins. Venjan er að í heiti frumvarpa komi fram hvaða lög muni taka breytingum verði frumvörpin að lögum. Í vinnu nefndarinnar kom í ljós að gera þurfti breytingar á sex lögum til viðbótar við þau þrenn lög sem talin eru upp í upprunalegu heiti frumvarpsins. Aðallega er hér um að ræða breytingar sem leiða að því að lög um vörugjald falla brott. Nauðsynlegt er að fjarlægja tilvísanir í vörugjaldslögin sem finnast í öðrum lögum.

Breytingartillaga nefndarinnar felst í því að við upprunalegt heiti frumvarpsins verði bætt orðunum „og breytingu á fleiri lögum“ í stað þess að telja þau öll upp. Fyrirsögn frumvarpsins orðist því svo:

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingu á fleiri lögum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta).

Hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagði breytingartillöguna fram þann 12. desember.