144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég hefði svarað þessari spurningu með atkvæði mínu við 2. umr. þar sem ég greiddi atkvæði með þeirri breytingu og þyrfti þess vegna ekki að fara yfir það hér. Ástæðan er sú að ég tel hana af hinu góða. Við þurftum að fara mjög hátt með efra þrepið á sínum tíma þegar þrengingar voru í ríkisbúskapnum og ágætt skref að stíga þar til baka.

Ég lagði hins vegar áherslu á að ég teldi ekki rétt að halda því til streitu að þyngja róðurinn hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar með því að hækka neðra þrepið eins og verið er að gera vegna þess að meira en 20% af útgjöldum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar eru einmitt í nauðsynjavöru sem fyrirfinnst í neðra þrepinu, ekki því efra. Þess vegna legg ég svona mikla áherslu á að menn geri breytingar á því. Ég kom meira að segja með tillögur um hvernig við hefðum getað fjármagnað það en það hefur kannski ekkert að gera með efra þrepið og eins og ég segi studdi ég það í atkvæðagreiðslu um málið.