144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og held að það sé líka ástæða til að við leggjum áherslu á það í þessari umræðu sem við getum verið sammála um og teljum æskilegt. Ég verð að játa að þegar ég horfi á þetta mál í samhengi eru tveir þættir sem mér finnst skipta mestu máli. Annars vegar er afnám laga um vörugjald og hins vegar þessi stóra lækkun á almenna virðisaukaskattinum á því sem hv. þingmaður nefnir nauðsynjavörur. Nauðsynjavörur eru reyndar af ýmsu tagi. Ég mundi halda að fyrir fátækar fjölskyldur sem eru á gömlum bílum skipti máli að fá varahlutina á aðeins lægra verði sem vörugjaldslækkunin mun til dæmis koma inn í. Fleiri þætti af því tagi má nefna.

Við verðum að horfa á það að jafnvel í þeim tilvikum þar sem matarútgjöldin eru hvað hæst sem hlutfall af tekjum er yfirgnæfandi hluti útgjaldanna samt sem áður í vörum og þjónustu undir efra þrepinu. Þá breytingu má ekki vanmeta eins og dálítið hefur verið gert að mínu mati í þessari umræðu. Það er einhvern veginn gengið út frá því að það sé sjálfsagður hlutur að það lækki en þegar um er að ræða breytingar á öðrum þrepum sem ég hefði vissulega viljað komast hjá er engu að síður um að ræða summu sem leiðir til betri afkomu fyrir alla hópa.