144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Rökin fyrir virðisaukaskattsbreytingunum eru að það eigi að auka skilvirkni. Skattkerfi eru ekki hoggin í stein og það er alveg eðlilegt að þau sæti endurskoðunum. Lífskjör á Íslandi hafa hins vegar dregist mjög aftur úr með falli íslensku krónunnar og þeim viðjum sem íslenskt efnahagslíf er í vegna fjármagnshafta.

Matvælaverð á Norðurlöndunum er lægra en á Íslandi. Matvælaverð er lægra nánast alls staðar í heiminum en á Íslandi sem má meðal annars rekja til krónunnar, en líka fleiri þátta. Það er langt að flytja matvöru hingað og svo má efast um að samkeppni á markaði hér sé nægileg þó að nóg sé nú af verslunum. Það að velja á þessum tímapunkti án þess að heildarmynd liggi fyrir með í loftinu óljósar hugmyndir um að það eigi að halda áfram að hækka skattinn og jafnvel riðla tekjuskattskerfinu frá þrepaskiptu skattkerfi yfir í flatt skattkerfi sem beinlínis þýðir aukna skattbyrði á fólk með lægri tekjur er vond ráðstöfun. Skattbreytingar þarf að framkvæma á réttum tíma. Þær þarf að skoða í stærra samhengi og það er algjörlega fráleitt að velja tíma sem þennan. Framsóknarflokkurinn lækkaði þennan skatt (Forseti hringir.) í mesta góðæri Íslandssögunnar og þótti sjálfsagt en núna þegar almenningur býr við mun krappari kjör á að auka matvælakostnað hans.