144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega alveg rétt hjá þingmanninum, að sjálfsögðu mundum við vilja semja svoleiðis fyrir fram. Því er hins vegar alltaf frestað. Þá er alltaf hægt að segja: Nei, við getum ekki gert þetta af því að það er ekki búið að laga tollana í milliríkjaviðskiptunum o.s.frv. Ef við mundum gera þetta einhliða væri alveg hægt að breyta þessari breytingartillögu með því að þetta tæki ekki gildi strax. Við gætum samþykkt það núna og það mundi taka gildi á næsta ári, t.d. um mitt næsta ár. Þá væri komin pressa á ríkisstjórnina að klára það. Ef það mundi nást að einhverju leyti en ekki öllu leyti þyrfti að sjálfsögðu að koma á móti einhver aukinn stuðningur. Við verðum samt sem áður ekki verr í stakk búin því að við neytendur yrðum komin með miklu skilvirkari skattheimtu.

Þessi skattheimta núna skilar sér ekki, þ.e. skaðinn sem neytendur verða fyrir með hærra matvælaverði skilar sér ekki nema svona 60% í ígildi ríkisstuðnings fyrir búvöruframleiðslu. Að sjálfsögðu væri hægt að gera breytingartillögu við þessa breytingartillögu, það er hægt að gera það núna, sem mundi segja að það ætti að fresta gildistökunni eitthvað. Þetta mundi samt sem áður setja þá pressu á framkvæmdarvaldið að huga að þessum samningum. Að sjálfsögðu mundi mögulega eitthvað frestast enn lengur, þingmaðurinn veit hvernig hægt er að fresta hlutunum. Það er hægt að fresta því með því að gera aðrar breytingartillögur eins og við erum nú að gera margar þessi jólin um að fresta gildistöku laga eða fresta því að lög falli úr gildi o.s.frv. Þetta mundi samt sem áður sýna þann vilja Alþingis að við viljum hafa skilvirkara skattkerfi sem skilar sér í stuðningi við búvöruframleiðendur án þess að valda neytendum óþarflega miklu tjóni í formi hærra matvælaverðs fyrir vikið.