144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það sem þessar breytingartillögur gera er að afnema kvóta og tolla á matvæli. Við ákveðum að leggja þær fram þrátt fyrir að ekki væru inn í þær byggðar mótvægisaðgerðir fyrir búvöruframleiðendur. Við höfum þar af leiðandi tækifæri hér til að benda á að þetta lækkar matvöruverð um 1–2% sem er akkúrat það sem matvælaverð mun hækka í heildarpakka ríkisstjórnarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra kallaði eftir því og sagði: Við erum tilbúin að hlusta á allar mótvægisaðgerðir.

Þetta eru mótvægisaðgerðir sem við erum búin að tala fyrir en við fáum ekki upplýsingar frá ráðuneyti hans til að geta fullunnið þessar tillögur. Við ætlum samt að leggja þær fram og benda á að þetta er vondur skattur. Þetta er vond leið til þess að veita búvöruframleiðendum ríkisstyrk. Hún veldur allt of miklum skaða fyrir neytendur fyrir allt of lítinn ávinning fyrir búvöruframleiðendur. Þetta vitum við.

Það sem við erum að benda á er að afnám þessara tolla, og það kemur skýrt fram, er árangursríkasta leiðin til að lækka matvælaverðið. Við eigum að fara árangursríkar og skilvirkar leiðir. Að sjálfsögðu bendum við samfara á að þetta er ekki heildstæð tillaga. Það vantar að ríkisstjórnin stígi inn í og vinni þetta heildstætt. Það væri hægt að gera með því að segja að þetta taki ekki gildi strax, en við getum samþykkt það núna. Ég skal bara leggja fram þá breytingartillögu að við frestum gildistökunni á þessu. Þá getum við að minnsta kosti samþykkt það.

Þetta er stefnan. Ef framkvæmdarvaldinu tekst ekki á einu ári eða hver fresturinn væri til að klára þá samninga sem þarf að klára við aðrar þjóðir um afnám tolla á móti geta menn lagt til að fresta gildistökunni enn frekar, eins og með fjölmargar tillögur núna. En þetta er sú stefna sem (Forseti hringir.) við eigum að taka og við getum samþykkt að þetta sé sú stefna sem við ætlum að fara, lækka matvælaverð (Forseti hringir.) og ýta þessum óskilvirka vonda skatti út af borðinu.