144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi atriði sem ég nefndi, sem ákveðin viðvörunarorð varðandi áhrif þeirra skattbreytinga sem hér leiða til lækkunar, ber ekki að skilja sem réttlætingu af minni hálfu fyrir hækkun matarskattsins eða hækkun neðra þrepsins í virðisaukaskattskerfinu. Fyrir því eru önnur rök sem rakin hafa verið áður í þessari umræðu sem lúta að því að minnka bilið milli þeirra þrepa sem eru í kerfinu með það að markmiði að reyna að draga úr þeim mun sem er á vöru og þjónustu sem fellur í mismunandi flokka. Fyrir því eru ákveðin skattatæknileg rök sem ég hef ekki tök á að fara út í í þessari umræðu hér.

Af því hv. þingmaður nefnir enn auðlegðarskatt og síðan veiðileyfagjöld, sem hefur verið gegnumgangandi í þessari umræðu, þá er um það að ræða að hv. þingmaður stóð sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta kjörtímabili ítrekað að því að breyta lögum um auðlegðarskatt en í öllum tilvikum var um það talað af hálfu hv. þingmanns og þeirra sem að því máli stóðu að um væri að ræða tímabundna skattheimtu. Það sem núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar hafa gert er að láta þá lagasetningu sem hv. þingmaður stóð að á sínum tíma standa, þannig að auðlegðarskatturinn fellur niður með þeim hætti sem gert var ráð fyrir þegar lagasetningin átti sér stað.

Varðandi veiðileyfagjöldin þá erum við einfaldlega þeirrar skoðunar, eða ég að minnsta kosti, að full bratt hafi verið farið, töluvert mikið og bratt, í lagasetningunni varðandi veiðileyfagjöldin á sínum tíma og það sé eðlilegt að tekið sé tillit til þess þegar sú lagasetning er endurskoðuð. Ég verð svo að vísa til þess að veiðileyfagjöld og fyrirkomulag sjávarútvegsmála koma til sérstakrar umræðu og athugunar hér á vorþingi.