144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann út í aðra röksemd sem hefur farið hátt hér og það er einföldunarröksemdin. Það er verið að reyna að telja okkur trú um að það séu öll vörugjöld að hverfa út úr skattkerfinu með þessum breytingum þegar veruleikinn er sá að það er aðeins tiltekinn hluti svokallaðra almennra vörugjalda sem er að hverfa þarna út. Það var gert ráð fyrir þeim áfram, samanber sykurskattshugmyndina, þannig að vörugjöld af innfluttum vörum yrðu áfram 870 milljónir og vörugjöld af innlendri framleiðslu 1.880 á næsta ári, þ.e. á sykruðu vörurnar og sætuefnin. Þar fyrir utan verða náttúrlega áfram í skattkerfinu vörugjöld af ökutækjum, vörugjöld af bensíni, vörugjöld af olíugjaldi, sérstakt vörugjald af bensíni, kolefnisgjald og síðan áfengisgjald, tóbaksgjald og ýmis vörugjöld. Allt eru þetta auðvitað áfram vörugjöld. Það sem einhver hindrun í vegi þess að viðhalda sykurskatti heldur náttúrlega ekki vatni. Það er fullt af alls konar sértækum vörugjöldum eftir sem áður áfram til staðar í lögum. Þannig að svo mikið fyrir einföldunina.

Síðan aðeins um tímasetningarnar á þessum breytingum. Það er spurningin til dæmis um það ef þessu hefði öllu verið frestað eða a.m.k. það sem menn eru að gera sér vonir um að lækkanir eins og niðurfelling á vörugjaldi og lækkun efra þreps skili sér út í verðlag, að sú breyting hefði verið látin taka gildi t.d. 1. mars en ekki um áramót. Það hefur verið hér dálítið sérstakur málflutningur uppi um að það skipti engu máli sem ég tel fjarri öllu lagi. Margt má segja um vitlausu breytinguna 2007 en hún var þó látin taka gildi 1. mars, ekki um áramót, það datt engum í hug og hefur almennt ekki verið talið skynsamlegt að láta slíkar breytingar gilda frá áramótum vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem þá eru í verðlagi og (Forseti hringir.) alveg ljóst að ef um ívilnandi breytingu er að ræða skiptir engu máli hvenær innan ársins þær eru framkvæmdar.