144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er margt rétt í þessu hjá þingmanninum og við náðum því raunar ekki að víkja að ýmsum öðrum atriðum um hringlandaháttinn eins og þann sem kemur fram gagnvart bílaleigunum og þessari gildistöku, bæði sem ætluð var gagnvart þeim og ætluð er með ýmsa þætti í frumvarpinu og verst er það auðvitað í skattprósentunni sjálfri sem þingmaðurinn réttilega bendir á.

Vissulega er ekki mikla einföldun að sjá í þessum breytingum. Það eru áfram tvö þrep og áfram ýmiss konar markalínur og undanþágur og tilfelli sem má velta fyrir sér. Ég sé ekki í hverju einföldunin liggur, en hitt er líka að það þarf að gjalda ákveðinn varhuga við orðræðunni um einfalt skattkerfi. Það er vissulega mikilvægt að það sé sem skilvirkast í framkvæmd, það séu stórir tekjustofnar með tiltölulega fáum undanþágum sem við byggjum megintekjuöflunina á. En við skulum líka hafa í huga að þau lönd sem verst fóru út úr hinum efnahagslegu hamförum eru löndin með einföldu skattkerfin. Það eru Austur-Evrópuríkin og það eru Eystrasaltsríkin og það er Ísland vegna þess einfaldlega að þau voru ekki með þróuð kerfi til þess að takast á við það mikla verkefni sem við var að glíma.

Það sem menn eiga að spyrja um er: Eru flækjurnar í skattkerfinu réttlætanlegar? Þjóna þær tilgangi? Skila þær árangri?

Ef svarið við þessum spurningum er já þá eiga menn að halda í flækjurnar, en ef svarið er nei þá eiga menn að fella þær burtu.