144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, sem kallað er hér kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta, má ýmislegt ræða. Við síðustu umræðu þessa máls hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar rætt þá og þá vankanta sem við sjáum á þessu frumvarpi og þessari breytingu. Fyrir það fyrsta vil ég segja að mér finnst dálítið hjákátlegt að eina breytingartillagan sem efnahags- og viðskiptanefnd gerir milli 2. og 3. umr. er að breyta fyrirsögn frumvarpsins. Ég verð að segja alveg eins og er að ef frá ráðuneytinu kemur frumvarp þar sem fyrirsögnin er vitlaus gerir það mig óneitanlega dálítið hræddan við það sem í frumvarpinu sjálfu er. Ég gagnrýndi við 1. umr. málsins þann tíma sem var gefinn í þessa vinnu frá því að hæstv. fjármálaráðherra skipaði nefnd sem átti að fara í gegnum þetta. Í febrúar síðastliðnum var skipaður þriggja manna stýrihópur sem ætlað var að vinna að tillögum að einfaldara virðisaukaskatts- og vörugjaldskerfi. Stýrihópnum var ætlað að starfa til loka árs 2016.

Síðan er í athugasemdum við frumvarpið lýst hvað hópurinn átti að gera og í skipunarbréfinu er meðal annars fjallað um þetta gagnvart virðisaukaskatti, með leyfi forseta:

„Fækkun þrepa. Sérstaklega verði skoðað hvernig nálgast megi langtímamarkmið um eitt þrep í virðisaukaskatti í áföngum með minnkun munar milli þrepa.

Breikkun skattstofns. Stefnt skal að breikkun skattstofnsins og jafnræði milli skyldra atvinnugreina. Undanþágur skulu endurskoðaðar í því ljósi.

Tekjuskiptingaráhrif. Litið verði til mótvægisaðgerða á grundvelli tekjujöfnunarsjónarmiða við mótun tillagna um fækkun þrepa og breikkun skattstofns.

Skattframkvæmd. Skattskil verði skoðuð og metið hvort stuðla megi að bættum skattskilum með breyttum lögum, reglugerðum eða framkvæmd.“

Þetta er sagt um virðisaukaskattskerfið og má ég aðeins minna á það að virðisaukaskattskerfið gefur ríkissjóði, ef svo má að orði komast, um 180 milljarða kr. Þetta er stór og mikilvægur tekjustofn hjá ríkissjóði sem við notum svo til að deila eins og öðrum tekjum ríkisins út til hinna ýmsu málaflokka sem okkur er annt um og höfum verið að gera.

Það má kannski taka undir öll þau atriði sem þarna eru sett fram, að þau séu öllsömul góðra gjalda verð til að skoða og fara í gegnum. Þess vegna hef ég oft, og gerði það meðal annars við 1. umr., leitt líkur að því að það hafi verið fullmikil fljótaskrift á þessu og þess vegna sé ýmislegt í þessum breytingum kannski ekki eins gott og það hefði átt að vera ef gefinn hefði verið meiri tími í þetta, ég tala nú ekki um í stýrihópnum væru fulltrúar allra flokka á Alþingi þannig að þess væri freistað að ná sem víðtækastri sátt um þetta mikilvæga skattheimtukerfi þar sem við erum meðal annars að ná niður og koma í veg fyrir undanskot.

Ég tók við 1. umr. dæmi af ferðaþjónustu. Ferðaskrifstofurekstur er ekki virðisaukaskattsskyldur og aðilar í ferðaþjónustu hafa nefnt við mig að ekkert sé hægt að gera við því að ferðaskrifstofa selji mér 100 þús. kr. ferð og skipti upphæðinni við skil á virðisaukaskatti eins og henni sýnist. Ferðaskrifstofureksturinn gæti þess vegna verið metinn á 50 eða 75 þúsund af þessu og síðan er mat, vínföngum, ferðum og öðru slíku raðað niður eins og það mundi henta best inn í virðisaukaskattskerfið með þessum þrepum sem við erum að tala um. Þau eru að mínu mati þrjú en ekki tvö vegna þess að eitt er 0%.

Ég er ekki viss um að á þessum tíma hafi tekist að vinna þetta nógu vel eins og við hefðum viljað gera þannig að við værum með betra virðisaukaskattskerfið eftir þetta. Rökstuðningurinn fyrir því er meðal annars sá að í maí 2014, sem sagt nokkrum mánuðum eftir að stýrihópurinn var skipaður, var óskað eftir tilnefningum í samráðshóp hagsmunaaðila um endurskoðunarvinnuna við lög um virðisaukaskatt og vörugjald. Þar var óskað eftir tilnefningum frá aðilum til að fara í gegnum þetta. Allt er þetta góðra gjalda vert að mínu mati en eins og ég segi held ég að við hefðum þurft að nota meiri tíma í að vinna þetta.

Þá kem ég að öðru stóru atriði. Eru áramót, þar með talinn starfstími Alþingis í nóvember og desember, besti tíminn til að fara í þetta? Eru áramót besti tíminn til að gera svo viðamiklar breytingar sem hér er verið að gera, sama hvort það er lækkun á efsta þrepinu úr 25,5% í 24% eða hækkun á miðþrepinu úr 7% í 11%? Er þetta besti tíminn til þessa? Ég held ekki, virðulegi forseti. Ef við ynnum þetta á góðum tíma og langt fram í tímann ætti sennilega gildistakan að vera við byrjun þriðja ársfjórðungs, þ.e. 1. júlí. Það er trúlega betra að gera það þá en á þessum tíma.

Í þessu sambandi má líka nota ferðina og nefna að hér á að taka upp virðisaukann á gistiþjónustuna frá og með 1. september. Núverandi stjórnarmeirihluti fór hamförum á Alþingi þegar síðasta ríkisstjórn ætlaði að breyta þessu og var með að mig minnir níu mánaða aðlögunartíma að því. Hagsmunaaðilar töldu það allt of stuttan tíma og sú ríkisstjórn var tilbúin að breyta þeim tíma, færa gildistökuna aftar. Á það var ekki hlustað af þáverandi stjórnarandstöðu, núverandi stjórnarflokkum, og allt gert til að bregða fæti fyrir þá aðgerð sem hér er svo verið að taka upp núna. Megingagnrýni mín á þetta frumvarp og þessa vinnu er annars vegar hversu seint var af stað farið með stýrihópinn og samráðshópana og allt þetta og hins vegar tíminn sem er valinn til breytinga.

Ég hef fyrirvara um ýmis tekjuskiptingaráhrif sem þetta hefur. Ég tók sem dæmi við 1. umr. útreikninga sem hafa verið settir fram um þá breytingu sem var verið að gera á virðisaukaskatti gagnvart húshitun og rafmagni. Hugsum okkur Höfn í Hornafirði, þar hafði virðisaukaskattsbreytingin í för með sér um 8.200 kr. hækkun á orkureikningi heimilanna. Hið sama á við um Ísafjörð, þar voru um 8.300 kr., í Grundarfirði 8.400 kr. og í dreifbýli 8.600 kr. Því var lofað af hæstv. fjármálaráðherra og sagt í andsvörum við mig að hann væri alveg opinn fyrir því að inn kæmi mótvægisaðgerð til að koma til móts við þessa virðisaukaskattshækkun á orkureikningum heimilanna, sérstaklega í dreifbýli og á stöðum sem búa við hátt rafmagnsverð, háan upphitunarkostnað.

Í fjárlagafrumvarpinu hefur litið dagsins ljós sem breytingartillaga tillaga um að auka niðurgreiðslur um 70,8 milljónir, ef ég man rétt. Ég taldi það góðra gjalda vert í byrjun en það er allt í lagi að segja frá því, virðulegi forseti, að ég hef óskað eftir því í atvinnuveganefnd að við fáum útreikninga frá ráðuneytinu, sem ég geri ráð fyrir að Orkustofnun hafi unnið, til að sjá og sannreyna að þetta sé rétt tala. Er þetta sú tala sem kemur á móti þessari hækkun þar? Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni vegna þess að það gerist síðar að frumvarp um jöfnun á dreifikostnaði raforku í dreifbýli — sem er hjá atvinnuveganefnd en var tekið út af meiri hluta nefndarinnar í morgun óbreytt — en sá sem hér stendur, fulltrúi Samfylkingarinnar, jafnaðarmanna, í nefndinni, og fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni munum skila séráliti og breytingartillögum sem gerir það að verkum að strax verði komið til móts við þann háa upphitunarkostnað sem allir kvarta yfir og hann jafnaður sem mest eins og um hefur verið talað. Það er í raun og veru með því verið að hafa endaskipti á frumvarpi ráðherrans. Það má líka segja frá því að þegar ég hreyfði þessari hugmynd fyrst í nefndinni var henni ákaflega vel tekið af fulltrúum allra flokka í nefndinni og það var sett í skoðun, m.a. fulltrúi ráðuneytis kallaður til til að fara í gegnum það, en það mál strandaði hins vegar á því, held ég, að ráðherra sagði nei og vildi ekki ganga þá göngu. Meira að segja held ég að ef við hefðum haft þessi endaskipti, eins og við kölluðum það í nefndinni, hefði mátt klára það mál fyrir jól. En ágreiningur er sem sagt um það mál og það mun ekki klárast nú.

Þetta var kannski útúrdúr en samt sem áður til að leggja áherslu á mál mitt hvað varðar þessa virðisaukaskattsbreytingu. Hvar hefur hún hækkun í för með sér, hvar eru mótvægisaðgerðirnar? Ég get nefnt, og hef nefnt það áður, að þetta mun hafa mjög alvarleg áhrif á ferðalög íþróttafólks sem leigir sér rútu til að fara í íþróttaferðalög. Nú leggst virðisaukaskattur á og hækkar ferðirnar. Mér er ekki kunnugt um hversu mikið þetta var unnið í nefndinni, hvernig var farið í gegnum þetta, en ég spyr mig: Gerir þetta það að verkum að rútufyrirtæki geta innskattað, eins og kallað er, meira sem leiði til þess að þegar ákveðinn hluti af ferðaþjónustunni er kominn inn í virðisaukaskattskerfið með þetta sem ég nefndi, íþróttafélögin, myndist neikvæður mismunur og rútufyrirtækin fari að fá greiddan mismun á innskatti og útskatti úr ríkissjóði? Ég hef ekki fengið svar við þessu, sit ekki í efnahags- og viðskiptanefnd og hef ekki getað séð það á breytingartillögum eða því sem hefur komið frá nefndinni hvað þetta varðar.

Því var líka lofað af hæstv. fjármálaráðherra að ef þetta hefði þau áhrif eins og ég gerði að umtalsefni við 1. umr. yrði það skoðað með mótvægisaðgerð. Hún er tiltölulega einföld, hún er með því að hækka framlag í ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga sem er 85 millj. kr. í dag samkvæmt fjárlagafrumvarpi en hefur ekki verið hækkað þannig að þar var ekki komið til móts við þetta.

Þá vil ég að lokum á þeim stutta tíma sem ég á eftir, þar sem ég er búinn að ræða um húshitunarkostnaðinn, íþróttafélögin, breytingatímann og nafnabreytinguna, fara aðeins yfir í sykurskattinn sem hér er felldur niður samkvæmt tillögu. Ég hef hlustað á þær ræður sem voru fluttar við allar umræður þessa máls þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar, eða minni hlutans sem ég kýs frekar að kalla, hafa gert þetta að umtalsefni og lagst gegn þessu. Þó að ég sé ekki mikið fyrir að auka skatta held ég að þessi skattur sem var lagður á í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem hafði manneldissjónarmið auðvitað að leiðarljósi en var líka til þess að afla ríkissjóði tekna á erfiðleikaárum, sé réttlætanlegur. Það er arfavitlaust að fella hann niður. Ég veit hvað þetta var mikið gagnrýnt á sínum tíma af þeim aðilum sem áttu að fara að greiða sykurskattinn með allar breytingar á tölvuforritum og öllu en ég er ekki búinn að sjá að þessu verði öllu breytt til baka fyrir áramót. Ég óttast að við það að fella niður sykurskattinn upp á rúma 3 milljarða kr. munum við ekki sjá lækkanir á vörum.

Það kom fram ekki alls fyrir löngu að stærsti greiðandi sykurskatts á Íslandi er Mjólkursamsalan. Hún sullar sykri í allar mjólkurvörur og gerir það að verkum að við ýmsir sem þykja mjólkurvörur góðar borðum mikið af þeim. (Gripið fram í: Rjómi.) Rjóminn er sérstaklega góður með góðu skyri og öðru slíku. Menn þurfa að fara alveg sérstaklega varlega með þessar dósir sem við skoðum til að reyna að finna dósir með sem minnstum sykri í. (Gripið fram í: Er hann ekki góður af því að það er sykur í honum?) Það getur vel verið en það getur líka verið jafn gott ef hann yrði minnkaður eða jafnvel tekinn út. Ég held sem sagt að það sé arfavitlaust og vil trúa því að minni hlutinn geri tillögur um það núna áður en umræðu lýkur.

Aðalumræðuefni mitt við 1. umr var hækkun matarskattsins úr 7% í 12% eins og þá var boðað, og gat um það hvernig Framsókn lagðist gegn því. Lítið finnst mér leggjast fyrir þá framsóknarmenn að gera sig ánægða með að lækka það um eitt prósentustig, þ.e. í 11%. Ég veit ekki hvort það er tímanna tákn að framsóknarmenn sætti sig við 11% virðisaukaskatt á matvæli og að það sé sama prósentutala og skoðanakannanir sýna þeim. Ég óska þess þá frekar að Framsóknarflokkurinn fari ofan í 7% og matarskatturinn verði bara áfram þar.