144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir að koma í andsvar við mig um þetta virðisaukaskattsfrumvarp svo að við getum átt samræður eða umræður um það.

Megingagnrýni mín á þessa breytingu hér er hversu stutt er síðan þessi endurskoðunarvinna hófst. Ég gat um það hvað virðisaukaskattskerfið er mikilvægt tekjuöflunarfrumvarpi ríkissjóðs, þess vegna er ákaflega mikilvægt að fara vel í gegnum þetta og ég óttast að það hafi ekki verið gert.

Þá ferð sem ríkisstjórnin fer í núna, sem er aðallega sú ferð að hækka virðisaukaskatt á matvæli úr 7% í 11%, sem átti að vera 12%, gagnrýni ég vegna þess að hún kemur sér mjög illa fyrir lágtekjufólkið í landinu, fólk sem þarf að lifa af kannski af 180–200 þús. kr. tekjum, hvort sem það er úr tryggingakerfinu eða bara lægstu laun. Það segir sig sjálft að þetta mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála þeirri brauðmolahagfræði sem sett hefur verið fram um að lækkun vörugjalda og virðisaukaþrepsins á flatskjái og þvottavélar og þess háttar komi nægjanlega til móts við þetta. Það er ekki nóg.

Af því að hv. þingmaður gerir líka að umtalsefni þá umræðu sem hér hefur verið um sykurskattinn þá er rétt að hann var tekjuöflunarleið en hann var auðvitað líka manneldissjónarmið. Ég hika ekki við að halda því fram, ég þekki það úr eigin ranni, að þegar vara hækkar, við getum tekið gosdrykki sem hækkuðu um 21 kr. á lítrann, ef ég man rétt varðandi sykurinn, hlýtur það að hafa þau áhrif að fólk hugsar sig um, fyrir utan það að umræðan í þjóðfélaginu er miklu betri í dag en hún var þegar kemur að manneldissjónarmiðum og sykruðum vörum og því að við eigum öll að forðast þær sem mest við getum. Ég held að þetta sé svar mitt við fyrra andsvari hv. þingmanns.