144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er svo sem allt gott og gilt. Það sem ég á erfitt með að skilja í þessu öllu saman er að segja í öðru orðinu, eins og hv. þm. Kristján L. Möller gerir, að það að hækka skattinn úr 7% í 11% komi illa við láglaunafólkið og hafi alvarlegar afleiðingar en í hinu orðinu að það eigi ekki að fella niður vörugjöldin af sykri, sem voru 3 milljarðar á heimilin, þótt niðurstöður rannsókna sýni, og það er enginn ágreiningur um það, að þetta sama láglaunafólk þarf að borga sykurskattinn. Þessu kem ég ekki heim og saman í mínum huga og er mér eiginlega óskiljanlegt.

Við getum auðvitað verið með vangaveltur um manneldis- eða lýðheilsusjónarmið en staðreyndir tala sínu máli. Sykurskatturinn hafði engin áhrif á neyslu sykurs, þetta var aðeins tekjuöflun fyrir ríkissjóð og gengur því auðvitað ekki upp.