144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta hefur verið málefnaleg og fróðleg umræða á köflum. Það gerist svo sem ekki oft undir lok umræðunnar að margt mjög nýtt komi fram, en ég vil samt sem áður þakka þeim hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir að leggja alla vega sitt af mörkum til þess að skýra betur þann hugmyndafræðilega ágreining sem er á millum a.m.k. Samfylkingarinnar annars vegar og Sjálfstæðisflokksins í ýmsum meiri háttar málum.

Mig langar áður en lengra er haldið, að þakka sérstaklega hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir þær ágætu hugmyndir sem hann setti fram um sykurskatt og Landspítalann. Ég held að þær eigi fyllilega rétt á sér og ég held að það sé rétt að stjórnarandstaðan skoði vel það frumkvæði sem hv. þingmaður hefur að því að setja hér fram nýja hugmynd.

Það er ekki margt í sjálfu sér sem ég held að skilji að á milli annars vegar mín og hins vegar manns eins og hv. þm. Brynjars Níelssonar um hvað það er sem við viljum. Við viljum gera Ísland betra, við viljum gera það að góðu samfélagi. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að við viljum fara mismunandi leiðir að því markmiði. Mér finnst stundum þegar maður situr undir ræðum sem tengjast fjárlögum og útgjöldum og tekjum ríkisins að greina megi hjá hv. þingmönnum tvenns konar viðhorf til stöðunnar í íslenskum stjórnmálum og íslensku samfélagi. Með fáum undantekningum að vísu finnst mér sem hv. þingmenn stjórnarliðsins tali jafnan með þeim hætti að þeir séu hér fyrst og fremst til þess að bæta fyrir einhvers konar mistök sem gerð voru í tíð síðustu ríkisstjórnar. Allt sem hún hafi gert hafi verið rangt. Á hinn bóginn eru ákaflega margir sem taka þátt í umræðunum af hálfu stjórnarandstöðunnar sem benda eðlilega á það sem þeim finnst vera skavankar á því fjárlagafrumvarpi sem hér um ræðir. Það er eðlilegt. Fjárlagafrumvarpið markar hina pólitísku stefnu ríkisstjórnarinnar. Við þær aðstæður er ekkert skrýtið þó að menn bendi á það sem betur mætti gera.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að síðasta ríkisstjórn hafi að mörgu leyti unnið þrekvirki, hún hafi komið Íslandi aftur á kjöl. Það var ekkert sjálfgefið og við skulum ekki gleyma því hvernig upphaf þeirrar tilraunar var. Þar þurfti að skipta um hest í miðri á vegna þess að ekki dugðu allir þeir hestar sem beitt var fyrir ækið. Á hinn bóginn er ég þeirrar skoðunar að einmitt þau átök sem eru á millum ólíkrar hugmyndafræði hinna mismunandi vængja stjórnmálanna hafi leitt til þess að Ísland er þrátt fyrir allt og hvað sem menn segja býsna gott samfélag.

Vitaskuld eru, eins og hv. þingmenn hafa bent á í umræðunni, váboðar fram undan. Ég nefni t.d. sérstaklega að það má ætla að síðasta ríkisstjórn hafi nauðbeygð gengið mjög langt fram í því að skera niður í heilbrigðiskerfinu. Ætlunin var alltaf sú að þegar við sigldum út úr öldudalnum mundum við nýta það svigrúm sem til væri til þess að sigla aftur út úr þeim niðurskurðardal. Og vissulega má segja að hæstv. ríkisstjórn hafi lagt töluvert fram í þeim efnum. Það er alls ekki svo að þetta fjárlagafrumvarp sé alslæmt, það er þvert á móti margt alveg ágætt í því, og það sama má líka segja um það frumvarp sem við ræðum hér. Eigi að síður er það þannig að bæði í frumvarpinu um breytingar á virðisaukaskattskerfinu og hinu frumvarpinu, sem það er auðvitað stoð undir, fjárlagafrumvarpinu, birtast tvær ólíkar lífsskoðanir og lífsviðhorf. Það hefur til dæmis komið mjög glöggt fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að hann er allt annarrar skoðunar en ég á því hvernig eigi að afla tekna til þess að standa undir því sem ég lít á sem eina meginstoð íslensks samfélags, þ.e. velferðarkerfinu.

Nú tek ég það skýrt fram, frú forseti, að ég lít á sjálfan mig sem klassískan jafnaðarmann. Það þýðir að ég berst fyrir tvennu, annars vegar að bæta kjör þeirra sem verst eiga í samfélaginu og um leið að reyna að tryggja öllum jöfn tækifæri, að tryggja að menn geti byrjað í sama rásmarki. Á hinn vænginn geri ég mér grein fyrir því að til þess að standa undir því áveitukerfi, sem ég hika ekki við að segja að skattkerfið sé, þarf öflugt og blómlegt atvinnulíf. Þess vegna er ég talsmaður þess að ýta undir sterkt atvinnulíf í landinu, og það þýðir vitaskuld að ég tel að menn eigi að fara hóflega í þeim efnum. Þau í hinni fyrri stjórnarandstöðu, þar á meðal hv. þm. Birgir Ármannsson, skökuðu hér skellum að fyrrverandi ríkisstjórn og grenjuðu og bitu í skjaldarrendur svo að jafnvel tók undir í fjöllum þegar þau héldu því fram að fyrri ríkisstjórn hefði gengið allt of langt gagnvart atvinnulífinu. Eigi að síður blasti við þegar menn skoðuðu og báru saman þann skattstiga, sem má segja að hafi orðið til undir tíð fyrri ríkisstjórnar, að við vorum einhvers staðar miðja vegu á skattstiga OECD-ríkjanna. Verra var það nú ekki.

Ef núverandi ríkisstjórn hefði viljað bæta hina almennu stöðu fyrirtækjanna í landinu hefði hún auðvitað byrjað á því að nýta það svigrúm sem hún taldi sig hafa til að gera það, t.d. með því að lækka tryggingagjald. En hún kaus að fara allt aðra leið og sú leið sem maður sér blasa við í hinum fyrstu gerðum ríkisstjórnarinnar annars vegar og hins vegar í þeim frumvörpum sem um er að ræða hér síðustu vikur, kristallast kannski í því að hv. þm Birgir Ármannsson taldi rétt að hans framlag til umræðunnar væri að boða fimmtu lækkunina á veiðigjaldinu. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri að segja að í vor ætti að endurskoða veiðigjaldið enn einu sinni. Þá telst mér til að það sé búið að lækka það fimm sinnum. Þá spyr ég hv. þm. Birgi Ármannsson: Veit hann ekki hvernig staðan er í sjávarútvegi? Er það ekki akkúrat í þessu, frú forseti, sem mismunandi lífsskoðanir kristallast?

Forgangsröð hæstv. ríkisstjórnar hefur birst í því að fyrsta verk hennar var að afnema auðlegðarskatt upp á 10–11 milljarða. Annað verk hennar var að lækka veiðigjaldið hið fyrsta sinni um 7–8 milljarða. Þar með er hún búin að klípa af mögulegum tekjustraumum inn í ríkissjóð fast að 20 milljörðum bara í þessu, og ég ætla ekki að hirða um hitt. En það sem mér finnst skjóta skökku við er að hér skuli koma upp sérstakur fulltrúi stórútgerðarinnar til þess að boða að farið hafi verið með ósanngjörnum hætti að útgerðinni og ég skildi hann ekki betur en svo en að í vor ætti enn einu sinni að lækka veiðigjaldið. Ég spyr: Hvar hefur hv. þingmaður alið manninn? Les hann ekki miðla eða fylgist hann ekki með? Hefur hann ekki skoðað hvernig afkoma undirstöðugreinanna er? Ég bendi honum á að lesa Viðskiptablaðið síðustu tíu dagana. Þar sæi hann til dæmis fregnir af því hvernig gengi Samherja er, sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem sagt var að við í hinni fyrri ríkisstjórn mundum með stefnu okkar varðandi veiðigjöld kreppa verulega að. Allt svo, frú forseti, sem kemur nú úr því kjördæmi, hæstv. forseti leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, en var ekki Samherji að skila 22 milljörðum kr. í hagnað á síðasta ári? Frú forseti. Ætli hv. þm. Birgir Ármannsson geri sér grein fyrir því hvað það er sem þetta tiltekna fyrirtæki skilaði af þeim hagnaði í gegnum veiðigjald? 890 milljónir. Það eru 4% af þeim hagnaði, hagnaði m.a. af því að nýta þær auðlindir sem okkur eru sameiginlegar. Ég gæti haldið áfram en ætla kannski að staðnæmast við stærsta sjávarútvegsfyrirtækið í mínu kjördæmi, HB Granda. Það var frétt um það í Viðskiptablaðinu að HB Grandi á árinu sem við í hinni fyrri ríkisstjórn þjörmuðum svona þjösnalega að útgerðinni, hefði aukið hagnað sinn um 133%.

Á sama tíma, frú forseti, og hv. þingmaður rennur hér fremstur í fylkingarbrjósti þeirra sem vilja fara mjúkum höndum um stórútgerðina og lækka veiðigjöldin enn einu sinni blasir við að verið er að hækka kostnaðarþátttöku sjúklinga svo um munar. Í fyrra voru það 600 milljónir. Á þessu ári á að bæta við þúsund milljónum til viðbótar. Og hvað er það svo sem við ræðum hér og höfum aðallega deilt um í því frumvarpi sem er til umræðu? Jú, það er matargjaldið. Ég heyrði það bæði á hv. þingmanni og hv. þm. Brynjari Níelssyni að þeim þótti það nú ekkert sérstakt tiltökumál, vegna þess að það væri verið að afnema vörugjöld af flatskjám og frystiskápum o.s.frv.

Þá vil ég segja algjörlega skýrt að það er tvennt í þessu frumvarpi sem mér finnst bara býsna gott. Í fyrsta lagi er verið að lækka efra þrepið um 1,5 prósentustig og í öðru lagi er verið að fylgja þeirri stefnu sem reynt var að framfylgja í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í með Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma, að afnema hin almennu vörugjöld. Gott og vel, það er mjög fínt. En það breytir ekki hinu að á þessu frumvarpi er líka önnur hlið. Hún er það allra versta við þetta. Það er verið að hækka matarskattinn úr 7 í 11%. Sýnt hefur verið fram á að það kemur langverst við þá sem lægstar tekjur hafa. Ég hef nú ekki orð ómerkari manns en hæstv. forsætisráðherra fyrir því að hækkun matarskattsins kemur langverst niður á þessu fólki. Og þetta er fólkið sem ég er í stjórnmálum til þess að slást fyrir, það er einfaldlega svo. Mín barátta fyrir því að skapa blómlegt atvinnulíf er ekki síst til þess að skapa ríkinu skatttekjur til þess að geta rétt hlut þessa fólks.

Þetta finnst mér að birtist í þeim frumvörpum sem við höfum verið að ræða, tvær ólíkar lífssýnir. Forgangur ríkisstjórnarinnar og a.m.k. einstakra þingmanna hennar virðist vera að byrja á því að lækka álögur á atvinnugrein sem blómstrar sem aldrei fyrr, enda sér maður það á fjárfestingunum sem fyrirhugaðar eru þar. Þessi grein sem átti að vera tekin kyrkingartaki af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á meðan hann gegndi með miklum sóma embætti fjármálaráðherra, er að skila þvílíkum hagnaði þrátt fyrir allt það sem við áttum að hafa gert að það væri eiginlega óðs manns æði að ætla að reyna að spegla þann veruleika með réttum hætti.

Hér hafa menn talað um skatta og stýringu á neyslu. Ég segi það algjörlega skýrt fyrir mig að mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar menn skammast út í að með sykurskatti sé verið að reyna að stýra neyslu. Það er þrennt í þessu samfélagi sem leggur á það ofurþungar klyfjar og það er ofneysla á áfengi, það er ofneysla á reyktóbaki og það er ofneysla á sykri. Af þessu þrennu tel ég að sykurinn sé mesti skaðvaldurinn. Það hefur margoft verið sagt, m.a. af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, kannski ekki þeim sem sem ég á hér orðastað við eða hef kosið mér að ræða örlítið við heldur ýmsum fyrirrennurum hans, að það sé m.a. ein af röksemdunum fyrir því að taka hátt tóbaksgjald og áfengisgjald að heilbrigðiskerfið í landinu, sem við öll stöndum undir, verði fyrir mestum kostnaði vegna þessa. En þegar allar rannsóknir sýna fram á það að sykurinn er verri en þetta, ja, herra trúr, má þá ekki nota nákvæmlega sömu röksemdir fyrir því? Jú, segi ég og skammast mín ekkert fyrir að segja að ég vil viðhalda sykurskattinum, til þess að stýra frá neyslu á honum og gef ekkert fyrir það þegar menn koma hingað og vísa í einhverjar rannsóknir sem OECD eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa gert um að hann sé ómarkviss. Ég tel að hann hafi skilað sínu. Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að taka þann skatt sem er 3–3,5 milljarðar á ári og þess vegna eyrnamerkja hann til að reisa nýjan Landspítala. Það er einfaldlega ákveðin lógik í því að skattur á vöru sem segja má að sé kannski stærsti einstaki bagginn á heilsugæslukerfinu og þar með Landspítalanum sé notaður til þess að fjármagna nýjan Landspítala. Ég tel að það sé ekkert að því.

Að öðru leyti, frú forseti, þá hef ég kosið að nýta ekki allan tíma minn til þess að greiða fyrir umræðunni, en vildi einungis undirstrika það gagnvart mínum góða félaga, hv. þm. Birgi Ármannssyni, að hann ætti kannski að nota sinn tíma í ræðustól til annars en að verja lækkun á veiðigjaldinu.