144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst nú ekki fallegt af hv. þingmanni að biðja mig um að leggja fram greiningu á sálarlífi framsóknarmanna, sem eins og hann segir er ákaflega bágt og illa statt um þessar mundir. Hv. þingmaður veit að til þess að geta lagt fram þær greiningar sem ég hef stundum gert af mismunandi tilefnum þarf ég miklu lengri tíma. Hitt er hárrétt sem hann segir að mér þykir vænt um Framsóknarflokkinn sökum upphafs hans og ég rek sjálfan mig sem stjórnmálamann til sama upphafs og minni á að á sama árinu voru þeir stofnaðir, Alþýðuflokkurinn gamli og Framsóknarflokkurinn. Og ég get varla minnst á það án þess að vikna að það var Jónas frá Hriflu, sem ég tel hafa verið stórkostlegan stjórnmálamann, vitaskuld gallaðan eins og okkur alla hina en framsýnn var hann, sem léði þá fátækum verkamönnum sína eigin hönd og hugvit til þess að draga upp stefnuskrána fyrir Alþýðuflokkinn. Þá lá alveg ljós fyrir framtíðarsýn hans, hún var að verkamenn í bæjunum og bændur til sveita ynnu saman. Þegar jöfnuður hefur risið hvað hæst á Íslandi hefur það verið undir samstjórn þessara tveggja flokka, það sýnir sagan. En ég ætla ekki að fara frekar út í það. Ég sé engan framsóknarmann hér og skil það vel af því að þeir eru gengnir upp að hnjám á flóttanum undan Sjálfstæðisflokknum og ég hef engar skýringar á því hvernig stendur á því að þeir létu berja sig svona í duftið. Það má rifja upp að það var Framsóknarflokkurinn sem hafði eiginlega frumkvæði að því og sannfærði mig með glæsilegum ræðum ýmissa forkólfa hans fyrr á árum að rétt væri að lækka matarskattinn úr 14 niður í 7%. Eins og hv. þingmaður veit var það ekki sársaukalaust fyrir mig og minn flokk að taka þá ákvörðun en það var rétt ákvörðun. En þetta er flokkur án staðfestu og þess vegna er hann í dag að verða flokkur án fylgis.