144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í því ljósi hefur hugmynd hv. þm. Kristjáns L. Möllers ef til vill ekki verið svo galin að miða lægra þrepið í virðisaukaskatti almennt við fylgisprósentu Framsóknar. Þá væri það sennilega nokkuð vel varið til næstu ára á mjög hóflegum nótum miðað við útlitið eins og það er í dag.

Ég verð að taka undir að mér finnst merkilegt hvað Framsókn hefur haft lítið fyrir sinn snúð hér, ekki síst vegna þess að þegar lagst er í svolitla heimildarýni kemur í ljós að greinargerð fjárlagafrumvarpsins byggði upphaflega á þeirri hugmynd að hækkunin yrði í 11%, sem eftir þann undarlega snúning verður svo niðurstaðan. Allt og sumt sem Framsókn hefur þá upp úr krafsinu er að hin upphaflegu áform fjármálaráðuneytisins, sem lentu inn í greinargerð frumvarpsins síðsumars, verða niðurstaðan. Að vísu með þeim afleiðingum að ríkið verður fyrir einhverju viðbótartekjutapi, því að ætlunin var þá að halda sykurskattinum inni og hækka krónutölugjöld um 2,5%, sem hefði þýtt að sú breyting var hlutlaus eða jafnvel rúmlega það. Ríkið hefði trúlega komið betur út úr því en niðurstaðan verður að lokum.

Ég hef skilning á því að hv. þingmaður þurfi meira en eina til tvær mínútur í djúpa greiningu á þessu máli, en það er nú ræðutími eftir hér í umræðunni og eitthvað á eftir að fjalla um þessi mál á næstu dögum. Mér finnst eiginlega ómögulegt að skilja við þetta mál fyrir jólin öðruvísi en að við höfum farið vel í gegnum það hvernig stendur á því að Framsókn skuli fara svona hörmulega út úr því. Ég nefni aftur sykurskattinn í því sambandi, vegna þess að ég veit frá fyrstu hendi, ég ætla ekki að nafngreina þar menn, að fleiri en einn og fleiri en tveir þingmenn Framsóknarflokksins eru með mikinn móral yfir sykurskattinum og hafa í mín eyru nánast beðið um liðsstyrk í því að reyna að vinda ofan af þessu, halda honum inni. Þá hefðum við til ráðstöfunar þó nokkrar tekjur sem við gætum annars vegar notað í að mæta kostnaðinum af óhóflegu sykuráti og hins vegar í önnur þörf verkefni.