144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar sérstaklega að nefna við 3. umr. um breytingar á virðisaukaskatti og það eru atriði sem ég tel ekki að hafi verið svarað með fullnægjandi hætti í þeirri umræðu sem við höfum átt um þetta mál. Jafnvel er það svo að ýmist hefur þeim atriðum ekki verið svarað eða menn hafa yppt öxlum og sagst ekki geta svarað þeim.

Þar er ég í fyrsta lagi að vitna til hækkunar á virðisaukaskatti á bókum annars vegar og tónlist hins vegar. Hér hafa verið lögð fram gögn og færð fram rök í ræðu og riti að þar sem virðisaukaskattur hefur verið hækkaður á bækur hefur það haft róttæk áhrif til hins verra á bókaútgáfu, þau áhrif að nýútgefnum bókum hefur fækkað og bóksala hefur dregist saman. Einu svörin sem ég hef fengið við þeim rökum að læra af reynslu annarra landa eru þau að menn telja ekki víst að þetta muni gerast á Íslandi, þetta sé svo tiltölulega lítil hækkun á hverja bók. Og því hefur alls ekki verið svarað hvernig eigi að bregðast við því ef nýútgefnum bókum fækkar. Hér yppta menn bara öxlum og halda áfram að tala um að það sé mjög mikilvægt að efla læsi barna, það sé algjört forgangsatriði. En það á ekki að grípa til neinna beinharðra aðgerða til þess að ná fram þeim markmiðum. Það á ekki að hlusta á þau rök sem hér hafa verið færð fram og gera það að verkum að Íslendingar eru komnir í hóp þeirra þjóða í Evrópu sem skattleggja bækur mest, og ekki bara í Evrópu heldur þótt miklu víðar væri leitað. Við getum litið til Kanada, við getum litið til Asíu, við getum litið til allra þeirra þjóða sem hafa sett fram markmið á borð við þau sem hæstv. ríkisstjórn boðar núna um bætt og aukið læsi, allar þessar þjóðir hafa tekið virðisaukaskattskerfið til skoðunar. Bretar gerðu það, Suður-Kóreumenn hafa gert það og aðrar þjóðir sem hafa beinlínis verið að vinna að því markmiði að bæta læsi. Þær hafa tekið virðisaukaskattskerfið og áhrif þess á bókaútgáfu og bóksölu með í þá reikninga.

Hér hafa menn vitnað í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en staðreyndin er sú að það er ekkert tekið fram um aukna skattlagningu á hvorki bækur né tónlist í þeirri skýrslu, það eru engin rök færð fram um þau málefni, og því miður, virðulegi forseti, hefur meiri hlutinn á Alþingi ekki hlustað, hann hefur ekki opnað eyrun og hlustað. Hann hefur kosið að líta fram hjá þessu eða segja eitthvað á þá lund að þetta verði kannski að skoða seinna. Hvers konar vinnubrögð eru það að skoða eitthvað seinna, jafnvel þegar skaðinn er orðinn?

Bókaútgáfa á Íslandi býr ekki við sterka innviði og það sama er hægt að segja um þá sem gefa út tónlist. Tónlistarútgáfa hér á landi hefur eins og alls staðar annars staðar gengið í gegnum mjög erfiða tíma vegna breyttra miðlunarleiða, tækninýjunga í útgáfu og miðlun efnis, og það að bæta þessum álögum á tónlistina og svo bækurnar, þar sem menn glíma í raun við sömu tæknilegu vandamál þó að það hafi ekki verið jafn áberandi í umræðunni, sýnir að mínu viti yfirgripsmikið skilningsleysi á starfsumhverfi hinna skapandi greina og hvað skiptir máli til að þær fái blómstrað, yfirgripsmikið skilningsleysi ríkisstjórnar og hæstv. forsætisráðherra, sem sagði í áramótaávarpi sínu síðasta að nú væri unnið að sóknaráætlun skapandi greina í menntamálaráðuneytinu. Ég vil nefna það við virðulegan forseta að ég lagði fram fyrirspurn um það atriði í október til hæstv. menntamálaráðherra og mér hafa enn ekki borist svör. Hæstv ráðherra hefur raunar bent á að sóknaráætlunin felist í að ekki sé sérlega mikill niðurskurður á skapandi greinum. Þetta væri líklega dæmt sem fremur léleg sókn, a.m.k. ef við værum að horfa á fótbolta.

Svörin koma ekki og líklega af því að menn hafa ekki sett sig inn í málin og vilja ekki skilja málin. Hér er fylgt því leiðarljósi að menn ætli sér að einfalda kerfið — það markmið næst raunar ekki með þessum breytingum því að virðisaukaskattsþrepin eru áfram tvö — og þess vegna má ekki grípa til neinna sérúrræða. Við erum hins vegar, virðulegi forseti, enn þá með núllþrep í virðisaukaskatti. Það hefði verið við hæfi, og það var það sem ég hvatti hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að gera, að skoða milli umræðna hvort betra væri að færa þessar menningargreinar niður í núllþrep. En meiri hluti nefndarinnar skilar áfram auðu í þessu máli og menn ætla bara að sjá hvað gerist.

Ég vil benda hv. þingmönnum enn og aftur á að þetta hefur verið skoðað, okkur hafa verið sendar úttektir frá alþjóðlegum stofnunum á áhrifum virðisaukaskattsbreytinga á bókaútgáfu, bóksölu. Með þessum breytingum förum við í hóp þeirra Evrópuþjóða sem leggja hæstan virðisaukaskatt á bækur. Tuttugu þjóðir í Evrópu leggja lægri virðisaukaskatt á bækur en 7%, sem er sú tala sem er í gildi núna, og nú þegar meiri hluti Alþingis ætlar að hækka þennan skatt erum við komin í hóp fjögurra þjóða Evrópu sem leggja hæstan virðisaukaskatt á bækur. Og mér finnst áhugavert að nefna að þar á meðal er Búlgaría, þar sem læsi mælist lakast í álfunni. En það á ekki að hlusta og það á ekki að reyna að sýna skilning á þessu máli, ekki á þessu frekar en tónlistinni.

Hitt atriðið sem mig langar að nefna hef ég nefnt áður í umræðunni, en það er sykurskatturinn. Ég vitnaði þá einmitt í Adam Smith eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði á undan mér um skattlagningu á rommi, tóbaki og sykri, en Adam Smith sagði í riti sínu um auðlegð þjóðanna að það væri líklega besta skattlagning sem hægt væri að finna því að enginn þyrfti á þeim vörum að halda. Það er áhugavert að lesa sig í gegnum þær umsagnir sem hafa borist frá þeim aðilum sem þekkja hvað best til innan heilbrigðisgeirans um sykurskattinn. Ég hef heyrt þau sjónarmið frá meiri hlutanum að sykurskatturinn hafi ekki skilað tilætluðum árangri með tilliti til lýðheilsusjónarmiða. Það er mjög áhugavert að ekki er vilji til þess að skoða framkvæmdina eða vera þolinmóður gagnvart því að kannski þurfi að endurskoða einhver atriði í því hvernig sykurskatturinn hefur verið innheimtur en markmiðið sé rétt. Í umsögn landlæknis er vísað til fræðigreinar í The Lancet, sem er líklega virtasta ritrýnda fræðitímarit á alþjóðavettvangi ásamt Nature, en í þeirri grein er m.a. bent á að sykurskattur hafi verið áhrifaríkasta leiðin sem Ástralir hafi farið til að bæta heilsu og draga úr útgjöldum vegna offitu, þ.e. skattur á óhollustu eins og við leggjum í raun og veru á áfengi og tóbak en sykur er ekkert minni óhollustuvara en þær vörur. Embætti landlæknis bendir líka á að hér sé ekki aðeins verið að afnema sykurskattinn heldur eigi líka að hækka matarkörfuna hjá venjulegu fólki. Ríkisstjórnin leggur til að ávextir og grænmeti, sem við borðum ekki nóg af, sem við eigum að borða meira af samkvæmt lýðheilsumarkmiðum, hækki í verði, og sykur sem við borðum of mikið af, yngsta kynslóðin hér á landi borðar 100 kíló á ári af sykri, lækkar í verði. Þannig að ríkisstjórnin og meiri hlutinn í þinginu með tillögugerð sinni ætlar sér að gera það auðveldara fyrir fólk að velja óhollari vörur, erfiðara að velja hollari vörur. Þetta er þvert á tillögur embættis landlæknis hvað varðar skattlagningu á matvörum og er líka í andstöðu við tillögur sem vinnuhópur á vegum velferðarráðuneytis setti fram í aðgerðaáætlun til að draga úr tíðni offitu. Þar var fyrsta tillagan að hækka álögur á óhollustu og nýta þær hækkanir til skattalækkana á hollari vöru. Og rannsóknir hafa sýnt, eins og ég hef bent á, að slík forvarnaaðgerð sé áhrifaríkari en fræðsla ein og sér. Þetta hefur ekki náð eyrum meiri hlutans.

Önnur rannsókn sem birtist í New England Journal of Medicine árið 2009 sýndi að verðstýring með sköttum eða vörugjaldi á sykraða gosdrykki getur verið mjög áhrifarík forvörn til að minnka neyslu og áhrifin séu mest þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og þeim sem drekka mest af gosdrykkjum.

Allir aðilar sem tjá sig um þetta mál innan úr heilbrigðisgeiranum og hafa skilað inn umsögnum eru sammála um þetta, að hér sé verið að leggja til ranga aðferðafræði, að hún geti haft í för með sér mikinn samfélagslegan kostnað í formi meiri offitu og aukinni tíðni lífsstílssjúkdóma, sem í mjög svo auknum mæli eru taldir tengjast sykurneyslu. Það kemur fram í annarri umsögn að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beinlínis bent á að sykurneysla sé orðin einn stærsti þátturinn þegar kemur að lífsstílstengdum sjúkdómum. Á þetta er ekki hlustað, og ég hef jafnvel heyrt því fleygt hér að þetta kunni að virka annars staðar en ekki á Íslandi, að þessi neyslustýring virki ekki á Íslandi. Aðrir segja: Gott og vel, og eru bara ekki fylgjandi neyslustýringu og það getur verið sjónarmið. En ef við erum reiðubúin að fallast á það að hafa gjöld á áfengi og tóbaki, ef meiri hluti hv. þingmanna samþykkir hiklaust tillögur um sérstök gjöld á áfengi og tóbak, finnst mér furðulegt að þeir séu ekki reiðubúnir að hlusta á þau rök sem allar þessar alþjóðastofnanir, aðilar innan heilbrigðisþjónustu, læknar og vísindamenn benda á, að gjöld og álagning á sykur séu áhrifaríkustu leiðirnar til þess að sporna gegn of mikilli neyslu. Og mér þykir sem menn líti fram hjá þeim staðreyndum að hér fer sykurneysla vaxandi, offita er vaxandi vandamál. Menn ætla ekki að bregðast við. Hér er meira að segja búið að skipa heila ráðherranefnd um lýðheilsu. Ég velti því fyrir mér: Hvað er hún að gera? Hún er alla vega ekki að kynna sér þær rannsóknir sem liggja til grundvallar því hvað eru mikilvægustu atriðin þegar kemur að forvörnum og því að tryggja lýðheilsu eða a.m.k. skila þeir fundir sér ekki hér inn í umræðu meiri hlutans.

Þetta eru þau tvö atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi gera að umtalsefni í minni ræðu. Ég hef sagt þetta hér áður þannig að ég tel ekki ástæðu til þess að fullnýta tíma minn til þess að lengja umræðuna. En það vekur athygli mína hversu rýr svörin hafa verið við þessum atriðum. Hér leitast menn ekki einu sinni við að svara með fullnægjandi hætti, horfa fram hjá gögnum og rannsóknum. Þetta er líklega eitt af því sem er hvað mest bagalegt við íslenska stjórnmálaumræðu, menn eru tilbúnir til þess að skipa sér í lið og neita að kynna sér gögn mála til þess að geta brugðist við og jafnvel skipt um skoðun.

Það er áhugavert þegar fylgst er með umræðu um annað mál sem hér hefur verið til umræðu og kemur væntanlega til umræðu aftur eftir áramót, um brennivín í búðir, að þá telja menn jafnvel að andstaða við það mál, sem nú hefur verið mæld á meðal þjóðarinnar, byggist á misskilningi. Mér finnst þetta ekki sýna, virðulegi forseti, að menn hafi opnað eyrun og séu reiðubúnir að hlusta á þá sem senda okkur umsagnir og koma með gögn til þess að hafa áhrif á lyktir mála, mér hefur ekki þótt menn vera reiðubúnir til þess að opna eyrun fyrir þeim málflutningi. Og á meðan þetta er viðhorfið, að taka bara fyrir eyrun og yppta öxlum, er náttúrlega ekki von á að umræðumenningin breytist mikið til batnaðar á Alþingi Íslendinga.