144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og vörugjald. Ég vil í upphafi ræðu minnar koma aðeins inn á það sem var kallað eftir áðan, að vera með einhverjar vangaveltur um Framsóknarflokkinn og hans hlut að þessu máli öllu saman. Ég er kannski að verða gömul en ég man þá tíð að Framsóknarflokkurinn gaf sig út fyrir að standa vörð um hag heimila í landinu, ekki bara í orði heldur líka á borði, og vera félagshyggjuflokkur sem maður leit upp til þó að maður sem betur fer gengi aldrei svo langt að kjósa Framsóknarflokkinn og hafi sloppið vel frá því. Samt sem áður leit ég alltaf á Framsóknarflokkinn sem þann flokk sem við vinstri menn gætum hugsað okkur að vinna með vegna þess að hann væri þannig félagslega þenkjandi að hann vildi beita sér fyrir jöfnuði, að jafna lífskjör í landinu og standa með þeim sem minna mega sín. Nú virðist sú kynslóð sem stýrir Framsóknarflokknum vera horfin frá þeim gildum sem Framsóknarflokkurinn fyrr á tíð stóð fyrir. Var það ekki Framsóknarflokkurinn sem átti slagorðið „Allt er betra en íhaldið“? Einhvern veginn finnst mér að það hafi upphaflega komið frá framsóknarmönnum. Framsóknarflokkurinn hefur brennt sig illilega á því í gegnum tíðina að vera í slagtogi með íhaldinu en virðist ekkert ætla að læra af þeirri reynslu. Nú virðist ekki mega á milli sjá hvor er meiri hægri flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn. Það er sérkennilegt fyrir þá sem hafa litið á Framsóknarflokkinn sem félagshyggjuflokk og flokk jöfnuðar að horfa upp á það að hann gangi að mörgu leyti enn þá lengra en íhaldið í að auka á ójöfnuð í landinu.

Ég tel að boðuð hækkun virðisaukaskatts á matvæli, hita, rafmagni og ýmsu öðru gangi út á að auka enn bilið milli ríkra og fátækra í þessu landi og var það nú nóg samt. Mér finnst með ólíkindum að enginn ætli að draga Framsóknarflokkinn aftur heim á rétta jötu, vil ég segja, til að standa með fólkinu í landinu. Það kom fram í atkvæðagreiðslu í 2. umr. um fjárlögin að það var þó einn þingmaður Framsóknarflokksins sem treysti sér ekki til að greiða atkvæði með hækkun á virðisaukaskatti á matvæli og er það gott en fleiri hv. þingmenn Framsóknar mættu hrista af sér slenið og standa með fólkinu í landinu. Það koma kosningar eftir ekki svo langan tíma og ég held að menn þurfi að vera búnir að ákveða hvernig þeir ætla að standa frammi fyrir kjósendum í lok þessa kjörtímabils. Ferilsskráin er hingað til ekki mjög gæfuleg fyrir Framsóknarflokkinn. Einhvern veginn býst maður eðlilega við svona ófélagslegum aðgerðum frá Sjálfstæðisflokknum en hefur haft ákveðnar væntingar til þess að Framsóknarflokkurinn mundi eitthvað kolefnisjafna sambandið þarna á milli, valdasamband sem hefur ríkt hér til fjölda ára, hátt í 18 ár fyrir hrunið sem varð hérna 2008. Það er eins og ný kynslóð sem stýrir Framsóknarflokknum svífi einhvers staðar í lausu lofti og finni hvergi rætur sínar og láti sjálfstæðismenn teyma sig út í forarpyttinn sem aldrei fyrr.

Mér finnst rétt að við hlustum á verkalýðshreyfinguna þegar kemur að aðgerðum varðandi virðisaukaskatt á matvæli svo ég taki það sérstaklega fyrir. Það hefur komið fram í fjölda umsagna þeirra hve alvarleg áhrif þetta hefur á kjör launafólks í landinu og í umsögn Alþýðusambandsins er lýst miklum áhyggjum af þeirri aðför að launafólki sem birtist i fjárlagafrumvarpinu. Það sama kemur hjá samtökum opinberra starfsmanna sem leggjast alfarið gegn hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts sem þýðir hækkun á nauðsynjavöru á borð við matvæli, heitt vatn og rafmagn.

Þessi ríkisstjórn virðist stöðugt þurfa að vera með mótvægisaðgerðir gagnvart eigin stefnu. Það hlýtur eitthvað mikið að vera að þegar menn þurfa með hinni hendinni sífellt að vera að mæta eigin vinnubrögðum með lagfæringum og mótvægisaðgerðum. Varðandi hækkunina á virðisaukaskatti á heitt vatn og rafmagn leggur meiri hlutinn núna til að lagðir verði fjármunir til þess að mæta þessari hækkun. Enginn veit hvernig eða hvort það skilar sér eða hvort það séu nægir fjármunir en það er bara eitt dæmi þess að ríkisstjórnin þarf stöðugt að vera með mótvægisaðgerðir gagnvart þeim ákvörðunum sem hún tekur hverju sinni.

Svo er ég hér með umsögn frá Verslunarmannafélagi Skagafjarðar varðandi virðisaukaskatt á matvæli. Þessi ríkisstjórn hefur oft hlustað á þær raddir sem berast úr Skagafirði og nú þætti mér gott ef menn legðu við eyrun og hlustuðu á það sem segir í umsögn Verslunarmannafélags Skagafjarðar, hlustuðu á eitthvað annað en það sem kaupfélagsveldið í Skagafirði hefur fram að færa. Stjórn Verslunarmannafélags Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða fram komið fjárlagafrumvarp og segir að nú sé kominn tími til að hlusta á fólkið í landinu.

Þetta eru orð í tíma töluð og ég legg til að framsóknarmenn leggi við eyrun og hlusti á það sem Verslunarmannafélag Skagafjarðar segir um fram komið fjárlagafrumvarp og þær miklu hækkanir sem felast í því.

Stéttarfélagið Framsýn er á sömu nótum. Hjarta ríkisstjórnarinnar slær ekki með verkafólki, segir í umsögn þess og ég held að það sé orðið algjörlega kristaltært að það gerir það ekki.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ráðist að ákveðnum grunngildum sem miða að því að fólk geti séð fyrir sér og sínum með reisn.“

Það er stóra málið, það er verið að gera fólk að einhverjum ölmusuþegum í þessu sambandi. Það er talað um mótvægisaðgerðir gagnvart hækkunum á matvæli og menn koma með einhverjar hækkanir í barnabótum sem því miður skerðast allt of snemma svo allt of fáir njóta þeirra. Í umræðunni hefur komið fram hjá stjórnarliðum að það eigi að taka mótvægisaðgerðir gagnvart þessum matarskattshækkunum og öðru í gegnum bætur.

Er mikil reisn yfir því að fólk þurfi að sækja rétt sinn með því að vera ölmusuþegar hvað þetta varðar og sækja sér félagslega aðstoð til að afla sér matar sem auðvitað enginn getur komist af án og er grunnþáttur framfærslu? Mér finnst lítill sómi í því að tala á þeim nótum að það eigi að hækka þær nauðsynjavörur sem matvæli eru og benda bara fólki á að það megi jafna það út gagnvart láglaunafólki með því að þá komi einhver félagslegur stuðningur í gegnum þá farvegi. Það er ekki til sóma að tala þannig til lágtekjufólks í landinu.

Stéttarfélagið Samstaða er með umsögn um þessi mál, mótmælir harðlega aðför að launafólki og telur að lágtekjufólk sé ekki í forgangshópi ríkisstjórnarinnar. Það hefur loðað við þessa ríkisstjórn að hafa ekkert samráð við þá sem hún ætti að hafa samráð við, eins og launþegahreyfinguna, og hefur breytt ýmsum grunngildum í samskiptum aðila vinnumarkaðarins til fjölda ára, m.a. með styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins og jöfnun örorkubyrða og verið að rífa þetta upp án nokkurra samtala við aðila vinnumarkaðarins. Hún hefur verið með einhliða ákvarðanir.

Stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur gagnrýnir fjárlagafrumvarpið og þessar aðgerðir sem snúa að hækkun á virðisaukaskatti á matvæli harðlega og segir, með leyfi forseta:

„Breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu, sem ríkisstjórnin leggur nú til, leggst með næstum tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta. Það er óásættanlegt.“

Verkalýðsfélög heilt yfir lýsa algjörri andstöðu við þá ákvörðun að hækka matarskattinn með þessum hætti, en það er ekki hlustað á það frekar en annað í þeim fílabeinsturni sem þessi ríkisstjórn virðist búa í og vera algjörlega úr tengslum við fólkið í landinu og þann almenning sem nú þarf að hafa sig allan við til að ná endum saman, lifa sómasamlegu lífi og geta veitt sér og sínum lágmarkstilbreytingu í lífinu með því til dæmis að njóta menningar sem við getum líka komið inn á. Ég hef miklar áhyggjur af því að með því að hækka virðisaukaskatt á menningu, bækur og tónlist sé verið að gera það erfiðara fyrir ýmsa hópa, ekki bara lágtekjufólk heldur líka meðaltekjufólk, að njóta þeirrar menningar sem við viljum að allir landsmenn hafi greitt aðgengi að. Þá verður þetta neysla fyrir forréttindahópa sem þurfa ekki að horfa í aurana þegar þeir vilja veita sér eitthvað í menningu og þá verða aðrir hópar skildir þar eftir og enn þá breikkar bilið, ekki bara í aðgengi að menningu heldur líka því hvað fólk lætur ofan í sig. Þessar tillögur ganga út á að það verður ódýrara að kaupa sér óhollustu en hollan mat. Það er grafalvarlegt og embætti landlæknis lýsir líka í umsögn sinni um þetta mál miklum áhyggjum af þeirri þróun sem hér birtist og þeirri stefnumörkun sem birtist í þessu plaggi. Það á að hugsa sem svo að það eigi að nýta þessa álagningu á óhollustu, eins og vörugjald á sykri, til að mæta kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Þetta mál er allt stórgallað og (Forseti hringir.) ég skora á Framsóknarflokkinn að vakna nú upp af þyrnirósarsvefninum og minnast þess hvernig forfeður þeirra og þeir sem (Forseti hringir.) lögðu drög að stefnu Framsóknarflokksins vildu sjá jöfnuð í landinu þróast.