144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:40]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þann 9. október 2006 hélt þáverandi ríkisstjórn Geirs H. Haardes blaðamannafund og tilkynnti um lækkun skatta á matvöru og voru vörugjöld afnumin af öllum mat nema sykri og sætindum. Virðisaukaskattur var lækkaður úr 14% í 7% og gengu þau lög í gegn 1. mars á því herrans ári 2007.

Það varð gríðarleg ánægja í íslensku samfélagi á þeim tíma — ég vil minna á að þetta gerðist á hinu herrans ári 2007 — þar sem sumir skáluðu í 14 karata kampavíni á miðvikudagskvöldum, og í raun var gleðin svo mikil að hinn árlegi bjórdagur var kominn með mjög sterka samkeppni þarna. Almenningur sem á þeim tíma hafði kost á 4,15% húsnæðislánum og bjó við góðæri og gleði kvartaði sáran undan of háu matarverði.

Ég tel mig geta fullyrt að staða almennings í dag er ekki sú sama sjö og hálfu ári síðar. Hér var „akút“ mál að lækka skuldabyrði íslenskra heimila, þeim er jú að blæða út. Ég get alveg tekið undir það að mjög erfitt er að reka stórt heimili á meðaltekjum á Íslandi í dag, jafnvel úti á landi. Og það er mun erfiðara en á hinu fræga ári 2007.

Ég vil því spyrja sjálfstæðismenn: Af hverju núna? Hvað hefur breyst á tæpum sjö árum? Í ræðum þingmanna í dag er hægt að lesa á milli lína að þetta með einföldun og vörugjöld er í rauninni bara svona englaryk. Hvernig dettur sjálfstæðismönnum í hug að íslenskur almenningur sé í dag, þegar fátækt barna á landinu hefur aldrei mælst meiri, tilbúinn að taka á sig skattahækkanir á grunnþörfum okkar, mat? Ég skil það ekki. Mér finnst þetta svo pólitískt vitlaust. Ég vil minna á að fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í rústabjörgunarstarfi sínu datt þetta ekki einu sinni í hug. Ég tel mig geta fullyrt að ef sú hugmyndafluga hefði farið á stjá hefðu að minnsta kosti framsóknarmenn, varðhundar íslenskra heimila, gjörsamlega brjálast út í silfurdrekann og fleiri. Og þeir hefðu sko alls ekki linnt látum. Ég vil fá að vita hvað annað liggur hér að baki, því að þessi rök, þessi aðferðafræði er mér ekki skiljanleg og ég var samt ekki að byrja í pólitík í gær.

Ég vil líka í lokin nota tækifærið og vara fólk við því að kaupa notaðan ísskáp. Það hefur alla vega ekki reynst þeirri sem hér stendur vel.