144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér spunnust áhugaverðar umræður fyrr í dag í þessu máli sem tengdust bráðabirgðaniðurstöðu hagvaxtarmælinga Hagstofunnar þar sem í ljós kemur að fyrstu níu mánuði þessa árs er hagvöxtur langt undir spám fyrir árið. Það kemur líka fram í þeim niðurstöðum að af þeim þremur ársfjórðungum sem bráðabirgðaniðurstaðan byggir á er samdráttur á tveimur þeirra, þ.e. negatífur vöxtur, sem er auðvitað bagalegt fyrir okkur. Hér voru menn að velta því fyrir sér hvað gæti verið þarna á ferðinni, vegna þess að ekki vilja menn fara aftur í sama gamla farið og fyrir hrun, það var rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði, með því að afneita vondum tölum. Menn þurfa að horfast í augu við þær og það þarf svo sannarlega að gera í þessu tilfelli og reyna að átta sig á því hvað er á ferðinni. Það sem mér finnst blasa við er að ríkisstjórnin hefur skapað gríðarlega óvissu um mjög marga hluti og þó nokkrir þeirra tengjast málinu sem hér er til umræðu, og það er óvissan sem hefur verið sköpuð í tengslum við kjarasamningagerð og ófriðurinn á vinnumarkaði á undanförnum missirum og er fyrirséð að verði á næstu missirum.

Varðandi það mál sem við ræddum hér á undan, virðisaukaskattinn, þá hafa stórir aðilar á vinnumarkaði og launþegasamtök mótmælt þeirri breytingu harðlega, þ.e. hækkun á neðra skattþrepinu. Engu að síður ákvað ríkisstjórnin að keyra það í gegn. Þessir aðilar hafa líka mótmælt breytingum sem verið er að gera í því frumvarpi sem við ræðum hér. Þess vegna er ég mjög undrandi á því, þegar menn vita að þessi ófriður er á vinnumarkaði sem leiðir síðan af sér töluverða óvissu um framvindu efnahagsmála hér á landi, að þeir skuli þá halda áfram að fara gegn því sem stóru aðilarnir á vinnumarkaði, stærstu launþegasamtökin, óska eftir. Hér hafa beinlínis verið gerð samkomulög við þessa aðila sem verið er að brjóta í frumvarpinu.

Svo ég nefni fyrsta atriðið þá er þar um að ræða starfsendurhæfingarsjóðina. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða í lögum um tryggingagjald verði framlengdur. Það mun hafa í för með sér að VIRK Starfsendurhæfingarsjóður þarf enn að bíða eftir því að ríkisstjórnin standi við gefin loforð um að 0,13% stofns tryggingagjalds renni til sjóðsins. Gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við þetta og ef menn skoða umsagnir t.d. ASÍ og BSRB kemur skýrt fram að þessu er mótmælt harðlega. Starf VIRK hefur auðvitað sannað sig svo um munar, en þetta mun leiða til þess að sjóðurinn þarf að synja þeim þjónustu sem ekki hefur verið greitt fyrir til sjóðsins vegna þess að framlag ríkisins tryggir að gildandi lögum og samningum að VIRK þarf að þjónusta alla eins. Það er mjög líklegt að breytingahugmyndir ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna grafi undan þessum grunnþætti í uppbyggingu starfsendurhæfingar eins og fram kemur í ágætu nefndaráliti minni hluta nefndarinnar við þetta mál.

Þá verð ég líka að nefna annað atriði sem aðilar á vinnumarkaði og stærstu launþegasamtökin og önnur launþegasamtök í landinu mótmæla og það eru breytingar sem tengjast jöfnun á örorkubyrði. Þar er um að ræða 4. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði lækkuð árlega um 20% og það sama eigi við á hverju ári næstu fimm árin þar til hlutdeildin hefur fjarað út. Þessu hefur verið mótmælt, líka sérstaklega vegna þess að þetta hefur verið gert án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Það er þetta sem ég undra mig á, virðulegi forseti, hvers vegna menn skuli á tímum þegar er jafn mikill óróleiki og raun ber vitni á vinnumarkaði, halda áfram í máli eftir mál að fara fram í ófriði gegn stærstu launþegasamtökum í landinu. Það er mér algjörlega óskiljanlegt vegna þess að það er algjörlega ljóst að þetta mun ekki liðka fyrir þegar kemur að gerð kjarasamninga. Það kom skýrt fram í viðtali við Gylfa Arnbjörnsson eftir að samþykktar höfðu verið breytingarnar á virðisaukaskattinum, sem aðilar á vinnumarkaði mótmæltu og ég kom inn á í upphafi máls míns, að það mundi svo sannarlega ekki liðka fyrir gerð kjarasamninga hér á landi.

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér einkenna þessa ríkisstjórn, farið er fram með ófriði sem síðan elur af sér óvissu og það skilar sér í þeim neikvæðu tölum sem við sjáum í bráðabirgðaniðurstöðum Hagstofunnar um hagvöxt hér á landi, því að það er ekki hægt að fara svona fram endalaust, það er ekki hægt. Við verðum að hafa vissu fyrir því hvað er að gerast í ríki þar sem við erum með gjaldeyrishöft, við erum innilokuð af gjaldeyrishöftum og gríðarlega óvissu þeim tengdum. Þar að auki skapa menn að óþörfu enn frekari óvissu í efnahagslífinu með því að ala á ófriði á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Það sem ég verð líka að nefna í þessu sambandi, af því að menn voru að ræða bráðabirgðaniðurstöðu Hagstofunnar um hagvöxtinn, er að það er mjög sérkennilegt að menn skuli ekki einu sinni leggja sig fram að einu eða neinu leyti og reyna að svara einu stærsta atriði og stærsta óvissuþætti í efnahagslífi okkar, reyna með einhverjum hætti að svara því hvernig þeir ætla að koma þeim þætti fyrir til lengri framtíðar og það er peningastefnan. Það er mér algjörlega óskiljanlegt. Einu svörin sem við fáum frá ríkisstjórninni eru humm og ha, menn ætli einhvern tíma að reyna að losa höftin, en þeir eru ekki komnir að neinni niðurstöðu, það er ekki hægt að ræða neinar leiðir í þeim efnum enn þá. Samt eru menn búnir að hafa mjög langan tíma til þess að reyna að finna út úr því. Á sama tíma eru menn tilbúnir til að fara í gríðarlegar skuldalækkanir, greiða úr ríkissjóði 80 milljarða til að fara í lækkanir á skuldum heimilanna en setja um leið á engan hátt fyrir lekann, þ.e. reyna ekki að svara þeirri spurningu hvernig þeir ætli að koma á stöðugleika í gjaldmiðilsmálum, sem er mesta böl okkar. Verðtryggingin er eins og menn vita ekkert annað en krónuskattur, það þarf sérstaka tryggingu á íslensku krónuna vegna þess að hún er svo óstabíl. Þetta er stærsti óvissuþátturinn. Og menn hafa í engu svarað öðru en því að þeir ætli að halda áfram að leyfa þessum hlutum að danka. Þá er ekkert skrýtið þó að blikur séu á lofti í helstu hitamælum efnahagslífsins.

Virðulegi forseti. Það er heldur ekki hægt að halda áfram að ræða þessi mál öðruvísi en að koma aðeins inn á heilbrigðiskerfið. Þar er náttúrlega mikill og stór óvissuþáttur líka og kannski birtingarmynd þess ófriðar sem skapaður hefur verið hér á landi. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa lýst áhyggjum af stöðu heilbrigðiskerfisins í dag, vegna þess að ég sé ekki að ríkisstjórnin sé að fara að leysa þau mál á næstunni. Það er eins og það sé enginn vilji til þess og menn geti ekki með nokkru móti fundið leiðir til að vinna sig út úr þeim vanda. Og hvernig skapa menn svona vanda? Jú, menn skapa hann að hluta til með því að svara ekki grundvallarspurningum um það hvert þeir stefni með kerfið yfirleitt. Þessi ríkisstjórn kom býsna brött fram eftir kosningar og lýsti því, alla vega annar stjórnarflokkurinn, að hér yrði ekki ráðist í uppbyggingu spítala. Hér var nú sagt áðan af einum talsmanni ríkisstjórnarflokkanna að breytingar verði ekki gerðar í gegnum steinsteypu, en í þessu tilfelli er það bara ekki rétt. Það er einfaldlega þannig að bygging nýs Landspítala er orðin þungamiðja í því að endurreisa heilbrigðiskerfið þar sem húsnæði spítalans er algjörlega að þrotum komið. Það er ekki hægt að þróa heilbrigðiskerfið áfram í þessu húsnæði, það er ekki hægt. Þar spilar inn í aðbúnaður og framtíðarsýn. Hvaða aðbúnað ætlum við að bjóða heilbrigðisstarfsfólki okkar og hvaða framtíðarsýn höfum við varðandi þróun heilbrigðiskerfisins? Það er ekki að undra þó að menn viti ekki hvert ríkisstjórnin ætlar að fara þegar hún talar svona þvers og kruss um jafn mikilvæg mál og raun ber vitni.

Þá verð ég að nefna í sambandi við heilbrigðiskerfið að í þessu frumvarpi er lagt til að S-merkt lyf og leyfisskyld lyf verði færð undir almenna greiðsluþátttökukerfið þannig að hið sama gildi um S-merktu lyf og leyfisskyld lyf og um önnur lyf sem ávísað er til notkunar utan heilbrigðisstofnana. Þarna er ekki verið að gera neitt annað en að auka greiðsluþátttöku sjúklinga innan heilbrigðiskerfisins. Mér er fyrirmunað að skilja á hvaða vegferð menn eru með þetta, vegna þess að greiðsluþátttaka sjúklinga hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og áratug. Við ættum frekar að vinda ofan af því og fara í hina áttina en ekki bæta í í greiðsluþátttöku sjúklinga. Það er algjörlega ljóst í mínum huga, virðulegi forseti, að stjórnvöld sem gera þetta eru ekki stjórnvöld sem hafa ákveðið að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins því hér setja menn peninga í alls kyns hluti. En þeir eru líka að afsala sér tekjum, ákveða að lækka veiðigjöld, ákveða að framlengja ekki auðlegðarskatt sem skilar töluverðum tekjum inn í ríkissjóð og á sama tíma eru teknar svona ákvarðanir sem þýða ekkert annað en að þeir sem eru svo ólánssamir að þurfa að nota heilbrigðiskerfið þurfa að greiða meira. Þetta er áhyggjuefni, virðulegi forseti, og við í minni hlutanum og við í Samfylkingunni erum alfarið á móti þeirri stefnu sem hér er rekin hvað heilbrigðiskerfið og greiðsluþátttöku varðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla samt ekki bara að vera neikvæð. Ég ætla líka að segja að stundum eru gerðar breytingar á milli umræðna sem eru jákvæðar og það var gert í þessu tilfelli, ein breyting. Ég hefði viljað sjá þær miklu fleiri og ég hefði viljað sjá þær snerta það sem ég hef farið yfir í mínu máli. En það voru þó gerðar breytingar á því að menn hafa ákveðið að framlengja ákvæði sem ívilna innflutningi og þar með kaupum eða sölu á grænum ökutækjum, þ.e. rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum. Þetta er jákvætt og ég fagna því að menn hafi ákveðið að gera það. Á sama tíma hef ég áhyggjur af orðalagi í nefndarálitinu þar sem segir að þetta sé framlengt eingöngu um eitt ár, þetta sé eingöngu svona að sinni. Ég held nefnilega að við þurfum að fara að taka skýra afstöðu til orkuskipta í samgöngum og hvernig við ætlum að breyta orkunotkun okkar þegar kemur að samgöngutækjum. Við ættum frekar að horfa til þess að setja okkur stærri markmið og taka ákvörðun um það að við ívilnum skattalega bæði orkugjöfunum og sömuleiðis ökutækjunum þangað til við höfum náð einhverri x prósentu í því. Ég hef áður nefnt í þessum stól að talan gæti verið 10%; þangað til að við erum komin upp að 10% af öllum ökutækjum og orkunotkun í samgöngum, þá ívilnum við. Það væri að mínu mati skýr framtíðarsýn og gæfi líka þeim breytingum það rými sem þær þurfa til þess að geta tekið sprettinn, en ekki vera alltaf að framlengja um eitt og eitt ár í einu. Það væri að mínu mati betra. Það er kannski seinni tíma mál, en ég teldi eðlilegt að nefndin skoðaði það í framhaldi af því að hafa þó tekið þessa breytingu inn eins og hér er gert. Ég vil að lokum segja að það er þó vel gert, en ég hefði viljað sjá miklu fleiri breytingar. Ég hefði viljað sjá að menn væru ekki að auka greiðslubyrði sjúklinga eins og í þátttöku í greiðslu á S-merktum lyfjum. Ég hefði viljað sjá að menn stæðu við samkomulag við aðila á vinnumarkaði (Forseti hringir.) og ég hefði viljað sjá að fleiri breytingar í þágu fólksins (Forseti hringir.) í landinu og þeirra sem minnst hafa í stað þess að þyngja byrðar þeirra eins og hér er verið að gera.