144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt og ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á það. En engu að síður er það mat meiri hlutans að það sé enn um sinn ákjósanlegt. Það er bara verið að framlengja um eitt ár, og ég notaði það að við séum eingöngu að framlengja þetta um eitt ár til þess að komast að sömu niðurstöðu og nefndin, þ.e. að við þurfum að setja okkur önnur markmið sem fela það í sér að menn viti hvert þeir eru að fara inn í lengri framtíð.

Þessi stefnumörkun er til. Hún er til í skýrslu sem unnin var í minni tíð í iðnaðarráðuneytinu sem heitir Orkuskipti í samgöngum. Hún er leiðarljós, afurð hennar er til í klasa sem fjallar um þetta, þ.e. um orkuskipti í samgöngum og er samstarf stjórnvalda og aðila í einkageiranum. Magnús Orri Schram og síðar ég höfum áður lagt fram þingmál um akkúrat þetta hér á Alþingi. Ég mun leggja það fram aftur núna á þessum vetri þar sem við tökum ákvörðun um það að að minnsta kosti orkugjafarnir sjálfir séu undanþegnir gjöldum og sköttum þangað til við höfum náð 10% markinu og það er þá vonandi eitthvað sem við getum rætt. En ég held að við þurfum ekki að fara í enn eina stefnumörkunina, þetta er nokk til og menn þekkja þetta ágætlega og geirinn sjálfur hefur kallað eftir þessu þannig að við ættum kannski, miðað við orð hv. þingmanns og nefndarinnar, að geta náð ágætlega saman um þetta og þessa framtíðarsýn á vorþingi.