144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega akkúrat það sem málið snýst um, við kölluðum eftir þessum fundi, hann átti nú ekki að vera fyrr en á miðvikudaginn til að byrja með en svo féllust forustumenn fjárlaganefndar á það að halda hann í dag, sem var vel, og var fundurinn mjög upplýsandi eins og ég sagði áðan. Ég tek undir það að ég held að Bankasýslan hafi ekki verið umdeild í þeim verkum sem hún hefur verið að sinna og með starfi sínu hefur hún skilað ríkissjóði tugum milljarða í arðgreiðslur. Það er enginn ágreiningur um hana sem slíka og ég held að á meðan ekki liggur fyrir hvernig á að gera þetta eigum við að láta hana starfa áfram og veita henni auðvitað fjármagn. Meiri hlutinn hefur enn tækifæri til þess, hvort sem hann ætlar að láta hana lifa í þrjá mánuði eða sex mánuði, af því að augljóslega kemur fram að það er einhver ágreiningur. Eins og hæstv. ráðherra sagði í svörum sínum í dag var hann búinn að leggja þetta fram í ríkisstjórn en kom því ekki lengra. Það segir okkur líka að við getum ekki gert ráð fyrir því að þetta frumvarp verði að lögum á vorþingi, það er ekkert sem segir okkur það.

Það er bara gamaldags pólitík að gera þetta með þessum hætti og auðvitað vekur það upp þá tortryggni sem við hefðum átt að læra svo vel af eftir skýrsluna góðu eftir hrunið að þetta er ekki eitthvað sem við gerum. Maður varð var við svona togstreitu á milli Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytisins. Hvers vegna veit ég ekki, en það var alveg augljóst og óþægilegt að verða vitni að því. Það var ekki einu sinni sameiginlegur skilningur á uppbyggingu stofnunarinnar, þ.e. hvort hún væri lík eða ólík öðrum stofnunum á Norðurlöndunum, eins og ég spurði um. Ráðuneytið telur að það sé engin önnur sambærileg stofnun á Norðurlöndunum eins og Bankasýslan er hér.