144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir síðustu orð hv. ræðumanns. Mér finnst þetta mjög stórt mál. Við fengum í sjálfu sér afskaplega lítil svör á þeim fundi önnur en þau að það væri allt saman óklárt. Og hér eru þingmenn í sal sem geta staðfest það að svo var.

Ekki er nóg að tala um að snyrtilegast sé að leggja fram frumvörp en gera það svo ekki. Ég veit ekki hvort það var Framsóknarflokkurinn, ég geri ráð fyrir því, sem var ekki alveg sáttur við þetta frumvarp. Það kom í sjálfu sér ekki fram. En það er undarlegt að vera með lifandi stofnun en engan fjárlagalið og stofnunin á samt að halda áfram, ja, alla vega hefur hún ekki verið lögð af, það er alveg klárt mál. Hún verður ekki lögð af nema með lagabreytingu og sú lagabreyting hefur ekki komið fram. Spurt er: Hvar á að borga fyrir stofnunina á komandi ári? Ja, það eru bara peningarnir sem voru millifærðir af henni í tiltekin verkefni í fjármálaráðuneytið, þeir eiga að vera þar í tiltekin verkefni. Við höfum fengið svör um það að þar verði ráðið nýtt fólk eða hugsanlega þetta fólk ef það hefur áhuga á því. En áðan kom fram eins og það gæti allt eins verið að þarna yrðu bara borguð laun þessa starfsfólks vegna þess að verið væri að leggja niður stofnunina. Mér finnst það mjög sérstakt.

Ég skil ekki, ef það er ákveðið að leggja hana niður um áramótin, og það er hægt að gera á þremur mánuðum eins og ráðuneytið sagði, af hverju kemur meiri hlutinn þá ekki með tillögu upp á 16 eða 18 milljónir eða hvað það nú er sem þarf þessa þrjá mánuði inn á þennan fjárlagalið til að hafa þetta hreint? Ég get ekki séð að þetta sé gegnsætt, ég get ekki séð að þetta sé agi eða ábyrgð í ríkisfjármálum. Allt þetta talar varaformaður og formaður fjárlaganefndar ítrekað um.