144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé ýmislegt sem er enn órætt áður en þingið fer heim og þar á meðal það sem varð tilefni orðaskipta hér síðast, en við getum kannski tekist á við það í 3. umr. um fjárlagafrumvarp á morgun. Það er þó að verða sú uppskera af því að búið er að hrekja stjórnarliðið út í þetta horn að meira að segja fjármálaráðherra viðurkenndi í dag í svari við óundirbúinni fyrirspurn að frágangurinn á þessu máli væri ekki til fyrirmyndar hjá ríkisstjórninni og það væri að sönnu dapurlegt að frumvarp sem hann hefði haft í undirbúningi um það sem við eigi að taka sæti fast inni í ríkisstjórn og þingið hefði ekki séð það. Það er það sem verið er að bjóða þinginu hérna upp á í sambandi við afgreiðslu á því máli.

Sömuleiðis kann að vera áhugavert að ræða á morgun einkavæðingaráform hv. varaformanns fjárlaganefndar í heilbrigðiskerfinu sem nú er að láta drauma sína rætast um að kostnaðarreikna hvert einasta viðvik inni í opinbera heilbrigðiskerfinu þannig að hægt sé að ryðja brautina fyrir að útvista því o.s.frv.

Ég ætla að taka að mér að mæla aðeins fyrir breytingartillögu frá efnahags- og viðskiptanefnd við 3. umr. þessa máls, því að satt best að segja var framsöguræða talsmanns nefndarinnar ansi stutt og ég tel ástæðu til að gera grein fyrir þeim breytingartillögum sem liggja þó fyrir núna við 3. umr. og eru fluttar af efnahags- og viðskiptanefnd sameiginlega því að þær eru auðvitað til bóta, það litla sem það er. Í fyrsta lagi varðar það breytingar á 1., 2. og 4. gr. frumvarpsins þar sem að vísu, því miður, hlutfallstalan 0,325 á að lækka niður í 0,260 1. júlí nk., þetta varðar greiðsluþátttöku ríkisins, þann hluta tryggingagjalds sem fer til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. En það góða við breytingartillöguna er að að öðru leyti falla ákvæði 1., 2. og 4. gr. frumvarpsins niður, þ.e. það hefur tekist að reka þannig flóttann að ríkisstjórnin hættir nú við, eða meiri hluti hennar, að lögfesta að í áföngum hverfi þessi greiðsluþátttaka ríkisins alveg eins og áformað var að gera, að hún yrði orðin að engu eftir árið 2018. Þetta er vissulega ávinningur og þótt það hefði auðvitað verið miklu meiri bragur að því að láta málið bara í friði og fara þá í þessar viðræður sem menn eru núna að tala um að eigi að fara í við lífeyrissjóðina um fyrirkomulag þessara mála.

Ég vil í öðru lagi nefna breytinguna í 4. tölulið breytingartillagnanna þar sem á að framlengja um eitt ár ákvæði til bráðabirgða XXIV þannig að í stað 31. desember 2014 komi 31. desember 2015. Þetta framlengir þá niðurfellingu virðisaukaskatts á umhverfisvænum bílum sem nota umhverfisvæna orkugjafa sem verið hefur inni í lögunum um nokkurt skeið en ríkisstjórnin hugðist fella niður. Það er búinn að vera mikill vandræðagangur með þetta mál þangað til loksins núna að það tekst að særa út þessa eins árs framlengingu. Það er að sönnu til bóta en augljóst mál að það þarf svo að móta framtíðarstefnu um fyrirkomulag þessara skattaívilnana. Það var náttúrlega enn kostulegra að standa frammi fyrir því að ekki virtist eiga að framlengja þetta ákvæði — eins og okkur var tilkynnt í efnahags- og viðskiptanefnd þegar málið var tekið til 2. umr. og hæstv. fjármálaráðherra hafði varist því hér í allt haust að gefa nokkur svör, nokkurt fyrirheit um að þetta yrði framlengt en á lokasprettinum heyktust menn nú á því, sáu sitt óvænna — vegna þess að í millitíðinni hafði hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson farið á ráðstefnu um rafbílavæðingu og haldið þar alveg skínandi góða ræðu um það hvað það væri rakið og mikið þjóðþrifamál að auka notkun rafbíla á Íslandi og að hann og ríkisstjórn hans væru heldur betur velviljuð því og hygðust móta stefnu inn í framtíðina og teppaleggja fyrir þessa þróun.

Síðan brá hæstv. forsætisráðherra sér til útlanda, aldrei þessu vant, í opinberum erindagerðum og hélt ræðu (Gripið fram í.) á loftslagsfundi úti í New York, var það ekki? Þar var hann á sömu nótum, að ríkisstjórn Íslands væri alveg á fullu að stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Það hefði því verið hálfsnautlegt fyrir sjálfan hæstv. forsætisráðherra ef þetta hefði engu að síður farið eins og til stóð, að ákvæðið væri ekki framlengt. En gott og vel, það er til bóta það sem það er. Vonandi nota menn tímann á næstunni því að auðvitað þyrfti að leggja niður, og það stendur svo sem ekki bara upp á þessa stjórn, það hefði mátt gera fyrr, eitthvert árabil þar sem sýnt verður hversu lengi tiltekinn stuðningur verður til staðar og hvernig verði svo í framtíðinni með þátttöku þessarar tegundar bíla í kostnaði af rekstri vegakerfisins. Það rekur að sjálfsögðu að þeim tíma fyrr en síðar að bílar sem nota aðra orkugjafa en bensín eða dísilolíu verða að fara að leggja meira af mörkum til að hægt sé að viðhalda og byggja upp vegakerfið. En það er mjög mikilvægt að fullvissa þá sem eru að velta fyrir sér að kaupa eitthvað dýrari bíl en vilja leggja sitt af mörkum og vera umhverfinu vinveittir að þeir muni njóta hagræðis í einhverjum mæli og það verði ekki komið í bakið á mönnum með því að kippa því allt í einu óforvarindis í burtu. Það snýr ekki síður að skattlagningu eldsneytisins sjálfs og/eða notkun á vegakerfinu.

Í þriðja lagi vil ég nefna að meiri hlutinn sá að sér varðandi það frumhlaup sem varð um lok umfjöllunar um málið fyrir 2. umr. þegar á síðustu mínútu áður en málið var tekið út var boðað að það ætti að helminga afsláttarþak af virðisaukaskatti vegna bílaleigubíla úr 1 milljón í 500 þús. kr. og það fyrirvaralaust með örfárra vikna aðdraganda. Auðvitað sáu menn að þetta var fráleitt og hörfuðu í helminginn af þessu þannig að nú er talan 750 þús. kr. að koma inn til að breyta breytingartillögunni frá 2. umr. sem var upp á 500 þús. kr. Það er nú festan í þessu. En hreyfingin er í rétta átt þó að það sé enn þannig að það er mjög harkalegt að skella þessu á með svona örstuttum fyrirvara og ekki síst í ljósi þess að bílaleigur hafa útbúið verðskrár sínar, pantað inn sína bíla o.s.frv., þótt þeir verði kannski flestir afgreiddir þegar nær dregur vorinu. Samtök ferðaþjónustunnar hafa einmitt sent bréf í dag þar sem þau mótmæla þessu og gagnrýna vinnubrögðin og skárra væri það nú.

Varðandi gildistökuákvæðin er þar breyting sem þýðir að þessi skerðing á greiðsluþátttöku til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða kemur inn 1. júlí í stað í upphafi árs, þ.e. 1. gr. öðlast þá ekki gildi fyrr en 1. júlí og það er ákveðinn varnarsigur, eins og áður sagði, en hefði þó mátt gera betur í þeim efnum.

Öðru er að heilsa í e-lið þar sem gildistaka 14.–16. gr. er áfram óbreytt 1. janúar á næsta ári. Það snýr að skerðingu atvinnuleysisbótatímabilsins og ég hvet hv. þingmenn til að ná sér í breytingartillöguna á þskj. 740 og reyna að lesa sig í gegnum setninguna í e-lið breytingartillögunnar en hún er svona, með leyfi forseta:

„Ákvæði 14.–16. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015 og eiga við um atvinnuleitendur sem eru þegar skráðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir 1. janúar 2015, atvinnuleitendur sem skrá sig án atvinnu og sækja um atvinnuleysisbætur 1. janúar 2015 eða síðar, hvort sem það er í fyrsta skipti eða viðkomandi heldur áfram að nýta fyrra tímabil skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sem og um þá atvinnuleitendur sem hafa áður verið skráðir án atvinnu en hefja nýtt tímabil innan atvinnuleysistryggingakerfisins skv. 30. eða 31. gr. sömu laga 1. janúar 2015 eða síðar.“

Ein setning romsar þessu öllu út úr sér, ekki dreginn andinn og ég hef gagnrýnt þetta áður í sambærilegum tilvikum og það er alveg ómögulegt, herra forseti. Það er ekki hægt að setja texta á íslensku máli svona fram, í 80 metra löngum setningum án punkts. Hver skilur þetta? Að hengja þetta allt saman aftan í eina einustu setningu. Jú, ég get held ég útskýrt á mannamáli hvað þetta þýðir og það er það dapurlega. Þetta þýðir nefnilega að breytingin tekur öll gildi strax, í einu lagi og eins harkalega og hægt er, 1. janúar nk. Hópnum er öllum rutt út strax, engin aðlögun sem og allir þeir sem lenda inni á tveggja og hálfs árs tímanum á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí nk. Allir skulu missa þennan rétt eins hratt og hægt er. Engin aðlögun og það í byrjun árs þegar í hönd fara erfiðustu mánuðirnir í atvinnustigi í landinu. Ég skil ekki meiri hlutann að hunskast ekki til þess að laga þetta. Það er útlátalítið að mýkja þetta þó þannig til dæmis að þetta sé styttur mánuður í senn eða eitthvað því um líkt, þannig að þetta komi ekki svona harkalega sem högg á allan hópinn strax. Ég held að það hafi verið allt of lítið rætt um þetta mál.

Nú eru eitthvað um 5.700–6.000 manns á atvinnuleysisskrá sem er allt of mikið en þó meira en helmingi minna en þegar verst lét og það hefur stórkostlega dregið úr kostnaði vegna greiðslu atvinnuleysisbóta, sem betur fer. En er það þá orðið ofverkið okkar að halda utan um þennan hóp, þegar búið er að greiða fullar og óskertar atvinnuleysisbætur allan tímann frá hruni og þegar hátt í 30 milljarðar kr. fóru þegar mest var á ársgrundvelli í þennan kostnað og tengdan kostnað vegna vinnumarkaðsaðgerða? Þessi kostnaður hefur meira en helmingast og ég trúi því ekki að við séum svo aum núna þegar við erum að leggja inn á sjöunda árið frá hruni að þá þurfi einmitt að kippa fótunum undan 1.000–1.300 manns, sem eru því miður í þeirri stöðu að vera langtímaatvinnulausir. Eigum við að þora að ræða það eins og það er að í ljósi þess að atvinnuástandið hefur batnað og fjölmennir hópar hafa fundið vinnu eftir atvinnuleit í mislangan tíma þá liggur það nokk í hlutarins eðli að eftir stendur hópur í mjög veikri stöðu sem hefur þrátt fyrir atvinnuleit í tvö og hálft upp undir þrjú ár ekki fundið vinnu? Er það hann sem við ætlum að skilja eftir einmitt núna og henda yfir á sveitarfélögin án þess að tala við þau einu orði og þau reikna kostnaðinn af því um 500 milljónir á næsta ári? Það eru mjög léleg vinnubrögð. Þetta er slappt hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er ömurlega slappt í ljósi þess að við olnboguðum okkur í gegnum þetta erfiða ástand á meðan það var sem verst og það tók að sjálfsögðu í að gera það með umtalsverðri hækkun atvinnutryggingagjalds og heilmiklum fjármunum í viðbót úr ríkissjóði sem átti enga peninga til að standa undir ýmiss konar vinnumarkaðsaðgerðum, námsúrræðum og virkniaðgerðum í þágu þessa hóps. Nú gerir ríkisstjórnin allt í senn; að veikja þau úrræði, draga úr fjárveitingum til virkra vinnumarkaðsaðgerða, loka framhaldsskólunum fyrir eldri en 25 ára og stytta atvinnuleysisbótatímann. Eru ekki allir stjórnarliðar stoltir af því? Finnst þeim það ekki glæsilegt? Eru rökin ekki sterk að einmitt núna sé ástandið svo aumt þegar í hönd fer árið 2015 að ekki er hægt að halda úti þessum stuðningi sem var kominn í þetta horf löngu fyrir hrun, búið að ákveða að atvinnuleysisbótatímabilið á Íslandi skyldi vera þrjú ár en það er ekki hægt núna? Þetta og ýmislegt fleira sem eftir stendur gerir það að verkum að þetta frumvarp hefur því miður allt of lítið batnað. Þótt vissulega hafi breytingar við bæði 2. og 3. umr. verið til bóta í nokkrum tilvikum er það einfaldlega allt of lítið.

Ég skil ekki að átakið Allir vinna skuli ekki vera framlengt, ég bókstaflega skil ekki að menn skuli ekki a.m.k. halda við það að einhverju leyti þótt þeir lækkuðu endurgreiðsluna kannski úr 100 í 80, þótt þeir gerðu það en héldu áfram stuðningi við húsnæði sveitarfélaganna og þá útvíkkun á þeirri endurgreiðsluheimild sem tekin var upp á sínum tíma. Að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða skuli vera skertur, hann fái ekki einu sinni að halda tekjustofni sínum, gistináttagjaldinu, óskertu og ríkisstjórnin ætli annað árið í röð, og meiri hluti hennar, að leggja upp með tóman sjóð inn í árið. Hvernig fór það í fyrra? Fór það ekki þannig að á útmánuðum hrökklaðist ferðamálaráðherra til að mæta inn í ríkisstjórn og biðja um mörg hundruð milljóna króna aukafjárveitingu? Svo var byrjað að úthluta henni áður en Alþingi hafði fallist á hana eða heimilað hana. Er góður svipur á því? Aftur loka menn augunum fyrir því að þörfinni er ekki á nokkurn hátt mætt með þessu. Reisupassafrumvarpið liggur hér flatt og stjórnarliðar hlaupa í allar áttir, fyrirvarar út og suður, sem betur fer. Það verður vonandi aldrei afgreitt og þá verða engir peningar og það verða hvort sem er engir peningar á næsta ári af því og sennilega yrði langt liðið á árið 2016 áður en yfir höfuð væri hægt að fara að innheimta einhverjar tekjur á grunni þess, sem væntanlega verður aldrei. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða með 145 millj. kr. í tekjur á næsta ári er eins og hver annar brandari þegar ríkisstjórnin sjálf og ráðherra sjálfur leggur fram þingmál hér á þinginu þar sem talað er um a.m.k. milljarð á ári sem þurfi af hálfu ríkisins í fjárveitingar í þennan málaflokk.

Það er allt of margt enn þá, því miður, sem fær algerlega ófullnægjandi úrlausn í þessu máli. Það hefði ekki kostað mikið í sumum tilvikum að laga það verulega til, eins og t.d. að láta jöfnun örorkubyrði í friði úr því að ríkisstjórnin hrökklast langleiðina til að láta það afskiptalaust. Nei, það er samt krukkað aðeins í það á seinni helmingi þessa árs. Það er heldur lítil reisn yfir því.

Þetta og margt fleira mætti ræða og ég komst ekki yfir nema um það bil helminginn af því sem ég ætlaði mér að taka fyrir þannig að það er viðbúið að ég fari aftur á mælendaskrá fljótlega.