144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar sem forseti veitir. Að sjálfsögðu er ég sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, það er lágmarkskrafa að hæstv. fjármálaráðherra komi hér og gefi einhver færi á sér. Ég er margbúinn að óska eftir því, bæði í umræðum um fjárlagafrumvarpið sjálft og tengd frumvörp, og hef litla uppskeru haft af því. Hæstv. ráðherra hefur ekki látið sjá sig í umræðum um þessi stóru mál sín, virðist vera að taka sér þær venjur hæstv. forsætisráðherra til hliðsjónar að mæta bara yfirleitt ekki hérna. Mér finnst það skrýtið, ég á því ekki að venjast á yfir 30 ára dvöl minni hér að ráðherrar algjörlega opinskátt og beinlínis hunsi svona þingið.

Ég greip þar af leiðandi til þess ráðs að semja við minn þingflokk um að fá að fara í óundirbúna fyrirspurn á ráðherrann, af því að það er eina tækifærið sem maður hefur til þess að ná orðastað við ráðherra sem mæta ekki í þinginu. Og það var gagnlegt vegna þess að hæstv. ráðherra var auðvitað hrakinn þar á þann flótta að verða að viðurkenna að málið væri ekki á nokkurn hátt í nógu góðum farvegi hjá sér. Hann hefði kynnt eitthvað í ríkisstjórn en það sæti þar fast. Þar af leiðandi er Alþingi í myrkri með það hvað stendur til á næsta ári, hvers konar fyrirkomulag eigi þá að taka við um eignarhaldið.

Meiri hluti fjárlaganefndar virðist engu að síður ætla að setja undir sig hausinn og það er búið að færa alla fjármunina inn í fjármálaráðuneytið, 47 millj. kr. Bankasýslan virðist þá ekki eiga að vera til í fjárlögum næsta árs, það verður enginn fjárlagaliður. Og ég segi það sem fyrrverandi fjármálaráðherra að ég tel það subbuskap að hafa ekki stofnunina á fjárlögum, þó með litla fjárveitingu væri, þannig að fjárlagaliðurinn sé til þegar greidd verða laun eða biðlaun og gerður upp kostnaður af starfseminni á næsta ári. Annað er auðvitað ekki tækt. Og í raun og veru held ég að það sé ekki í samræmi við fjárreiðulög að vísa á einhverja fjárheimild sem er búið að sulla inn í almennan rekstur fjármálaráðuneytisins. Og hver ætlar að annast þá millifærslu? Og hvað mun Ríkisendurskoðun segja við því? (Forseti hringir.)

Burt séð frá pólitíkinni í málinu, sem er ærið tilefni til að ræða, (Forseti hringir.) er þetta fjárstjórnarlega ekki boðlegt.