144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við vitum það vel og ég hef sagt það hér fullum fetum að yfir sparisjóðunum vokir banki eins og Arion. Við vitum að hann vinnur að því leynt og ljóst að klófesta Afl sem er hryggsúlan í því sem eftir lifir af sparisjóðunum. Og það sætir mikilli furðu að einmitt þegar þau mál eru í deiglu skuli það vera sérstök ósk og sérstakur pólitískur vilji hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, að husla Bankasýsluna eins og hverja aðra druslu í gröf. Er það til þess að hægt sé að koma þessum málum fyrir eins og honum og einhverjum kann að þykja hentast?

Í öllu falli, herra forseti, þá tel ég að málið sé þannig vaxið að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra verði að koma hingað og skýra okkur frá stöðu þessa máls, sem núna er strand í ágreiningi á millum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórninni. Ég tel að þingið eigi heimtingu á að vita hver eigi að verða afdrif (Forseti hringir.) þessarar stofnunar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)