144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held reyndar að fleira geri það að verkum að það er ákaflega vandasamt fyrir Alþingi að fara heim að óbreyttum aðstæðum. Ég nefni þar læknaverkfallið. Það er eiginlega hrollur í manni þegar maður sér hversu algerlega afvelta ríkisstjórnin er með það mál og ráðalaus. Ekki batnar það nú ef ekkert aðhald er að henni á þingi og henni er ekki haldið við efnið. Ég er ekki bjartsýnn ef ríkisstjórnin fær að laumast heim í jólaleyfi með málin ófrágengin og þar á meðal þetta.

Ég geng reyndar lengra, ég tel að það sé ekki í samræmi við lög að leggja ekki Bankasýslunni til einhverjar fjárveitingar úr því að ekki er búið að fella hana niður með lögum. Það fyndna er að þetta mun hitta hæstv. fjármálaráðherra sjálfan fyrir vegna þess að lögin um meðferð eignarhluta og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru ónýt og heimildir fjármálaráðherra eru ónýtar nema Bankasýslan sé að óbreyttum lögum starfandi og vinni sína vinnu í þeim efnum, þar á meðal geri tillögurnar til hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra verður því handlama í þessum málum strax frá áramótum ef þetta verður niðurstaðan.