144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðuna. Ég ætla að staldra við styttinguna á atvinnuleysisbótatímabilinu. Með því að skerða réttindi atvinnuleitenda sem eru tryggðir innan kerfisins og hafa unnið sér inn réttindi í kerfinu ætlar ríkisstjórnin að spara ríkissjóði 1.130 milljónir.

Mig langaði í þessu sambandi að minnast á, af því að hér var náttúrlega gríðarlegt atvinnuleysi og fór hæst í mars eða apríl 2009, að þáverandi ríkisstjórn náði góðu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Samtök atvinnulífsins tóku á sig hækkun á tryggingagjaldi til þess að fjármagna auknar atvinnuleysistryggingar. Síðan lengdum við bótaréttinn í fjögur ár tímabundið vegna þess alvarlega ástands sem hafði skapast. En nú bregður svo við að þriggja ára rétturinn verður skertur. Hann kom inn í lög 2006 og hafði þá verið styttur í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins auk þess sem unnin voru sérstök lög um virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann sem fyrrverandi fjármálaráðherra hvort sú aðferðafræði sem hér er verið að beita, með einhliða ákvörðun ríkisvaldsins og því að skila ekki til baka fjármunum vegna tryggingagjaldsins, séu vinnubrögð sem hann kannist við úr eigin tíð (Forseti hringir.) eða hvort hér sé um nýlundu að ræða.