144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé alvarlegra mál en kannski tölurnar og sex mánuðir beinlínis leiða í ljós ef maður reynir að velta fyrir sér aðstæðunum sem á bak við liggja. Ég held að ástæða sé til að ætla að í þessum hópi, 1.000–1.300 manns, sé stór hluti þeirra sem enn eru án atvinnu og hvað veikasta stöðu hefur í þeim efnum. Og af hverju held ég það, herra forseti? Jú, það er vegna þess að þetta er hópur sem enn er langtímaatvinnulaus. Þrátt fyrir að atvinnuástandið hafi batnað jafn mikið og raun ber vitni og þrátt fyrir að þetta fólk hafi verið í atvinnuleit í tvö og hálft til þrjú ár er það enn í þessari stöðu, og það segir okkur ábyggilega ákveðna sögu. Hér gætu verið margir á ferð sem eiga við t.d. geðræn vandamál að stríða og hafa veika stöðu á vinnumarkaði vegna slíkra veikinda og annað í þeim dúr. Mér finnst alveg óskaplega lágt (Forseti hringir.) á þessu risið.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns þá hef ég nú ekki tíma til að koma inn á hana en geri það kannski seinna.