144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með það sem var rætt í fyrra andsvari hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um styttingu tímabilsins um sex mánuði hjá þeim sem hafa verið í atvinnuleit. Það er athyglisvert sem kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hér er án fyrirvara í rauninni verið að samþykkja núna 15. desember, eða þetta verður samþykkt á morgun eða hinn, að fólk falli út af bótum 1. janúar. Það er í þessu einhver ótrúlegur fjandskapur við þetta fólk, virðingarleysi. Umhyggjan kemur svo kannski fram í mildum texta í nefndaráliti þegar menn tala um bílaleigurnar og lækkun afsláttar af vörugjaldi. Þar stendur, með leyfi forseta, að það hafi komið í ljós að þetta komi „nokkuð hart niður á bílaleigum“. Þess vegna er dregið til baka þar. Það er í sjálfu sér enginn ágreiningur um það, en vorkunnsemin er meiri við bílaleigufyrirtæki en fólk sem er að detta út af bótum og fær engar bætur margt hvert vegna þess að makar hafa tekjur og vegna annarra þátta þannig að það dettur algjörlega út af bótum. Sveitarfélögin grípa ekki inn í. Að minnsta kosti verður eyða þangað til sveitarfélögin geta gripið inn í.

Á sama tíma er grafið undan því úrræði sem sett var upp með þátttöku ríkisins, sem er VIRK Starfsendurhæfingarsjóður. Nú átti að koma inn þriðji hlutinn, þ.e. ríkishlutinn, til þess að taka á þeim hópi sem hefur ekki verið á atvinnumarkaði og hefur takmörkuð réttindi, en svo verður ekki. Þar erum við að tala um þann hóp sem á þyngst og erfiðast með að koma sér í vinnu. En nei, það á að lækka líka hjá Vinnumálastofnun, minnka ráðgjöfina og minnka þjónustuna við þennan hóp, sem þyrfti að margfaldast til þess að við fáum ekki langvarandi örorku sem afleiðingu af því erfiða tímabili sem fólk hefur farið í gegnum í atvinnuleysinu.