144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma hingað til þessarar umræðu og sömuleiðis fyrir afar málefnalega ræðu þar sem hann gerði skýra grein fyrir sjónarmiðum sínum til lengri framtíðar líka. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra mætti taka hann sér til fordæmis varðandi þetta.

Mín afstaða er hins vegar sú að ég tel að stærð stofnunarinnar skipti engu máli heldur sú staðreynd að með henni eru skapaðar kringumstæður sem halda umsýsluhluta ríkisins í fjármálastofnunum í hæfilegri fjarlægð frá hinu pólitíska valdi og koma til dæmis í veg fyrir það að menn geti aftur horfið til þess tíma að skipa menn í stjórnir sem fulltrúa ríkisins út frá pólitískum sjónarmiðum. Það skiptir máli að hafa það algjörlega á tæru.

Það sem skipti mestu máli í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, og hann leiðréttir mig þá ef ég hef misskilið hann, er eftirfarandi: Hann segir að vegna þess að þetta fellur ekki vel saman í tíma, þær hugmyndir sem hann hefur og afgreiðsla fjárlaga, sé framtíð stofnunarinnar með vissum hætti í tómarúmi og þess vegna muni undir 3. umr. á morgun vera lögð fram tillaga um að stofnuninni verði veitt fé til þess að halda áfram, þangað til búið er að ná fram endanlegri niðurstöðu í málið. Ég get alveg fallist á það, það finnst mér vera sanngjörn lausn á þessu máli eins og það horfir við þinginu, því að við skulum líka gæta að virðingu þingsins.

Ef ég misskil hæstv. ráðherra vil ég að hann greini frá því, en ef þetta er réttur skilningur get ég fallist á það og tel að það mundi mjög greiða fyrir þessari umræðu. Ég er síðan ósammála honum um hvað kunni að vera mikilvægasta verkefnið fram undan en ræði það kannski síðar í kvöld.