144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðastnefnda atriðið um slíkt heimildarákvæði þá hef ég ekki rekist á neina beiðni, hvorki frá Bankasýslunni né annars staðar um slíkt ákvæði. En varðandi Landsbankann, er gott að finna fyrir því að það virðist vera ágætissamstaða í þinginu um að það sé rétt að ríkið lækki við eignarhlut sinn smám saman. Við skulum halda því til haga í þeirri umræðu í fyrsta lagi hversu gríðarlega stór eignarhluturinn í Landsbankanum er fyrir íslenska ríkið. Það eru örugglega ekki dæmi um aðra eins fjármálaeign ríkis eins og Landsbankinn er fyrir Ísland í öðrum löndum. Og það er sama hvort við horfum á heildarvirði Landsbankans sem hlutfall af fjárlögum eða þess vegna landsframleiðslu, þetta er gríðarlega stór eignarhlutur að halda á, að ég tali nú ekki um þegar ríkið hefur skuldsett sig fyrir eigninni, en við gáfum jú út skuldabréf fyrir á þriðja hundrað milljarða á sínum tíma til þess að endurreisa íslenska bankakerfið og höfum verið að greiða vexti af þeim skuldum síðan.

Þess vegna finnst mér það orðið eitt helsta viðfangsefni okkar í ríkisfjármálunum að horfa aftur á efnahagsreikninginn. Við höfum verið að takast á um það hér undanfarnar vikur hvað við erum að gera í rekstri ríkisins og finnst mörgum ekki nóg að gert varðandi ný útgjöld og forgangsröðun, en okkur er mjög þröngt sniðinn stakkur vegna þess hversu vaxtabyrðin er okkur þung og það er ekki síst vegna lána sem við tókum til þess að eignast þessar sömu fjármálaeignir, eins og Landsbankann. (Gripið fram í.) Nú munum við einmitt fá tækifæri til þess að greiða þær skuldir aftur til baka þegar eignarhlutirnir verða seldir. Það ánægjulega er að sjálfsögðu að (Forseti hringir.) að við fáum vonandi allt sem við lögðum fram og gott betur.