144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við viljum bæði. Við viljum armslengd en auðvitað viljum við gagnrýna umræðu um ákvarðanir í fjármálakerfinu, skárra væri það nú. Við höfum lært af biturri reynslu að við eigum að vera gagnrýnin á ákvarðanir í fjármálakerfinu,

Þess vegna hlýt ég að ítreka spurningu mína: Telur ekki hæstv. fjármálaráðherra að það sé nauðsynlegt að þegar Landsbankinn í 98% eigu ríkisins selur eignarhlut í fyrirtækjum gerist það í opnu og gagnsæju ferli og annað sé fallið til þess að skapa óþarfa tortryggni um starfsemi bankans?

Í öðru lagi vil ég nota tækifærið og spyrja ráðherrann vegna talsins um sölu á eignarhlutnum í Landsbankanum hvort hann telji ekki nauðsynlegt áður en breytingar verða verulegar á eignarhaldi hér í viðskiptabönkunum stóru að við setjum um það lög, eins og eru í Noregi til að mynda, að aðilar geti ekki átt meira en 10% í viðskiptabanka, hvort við höfum ekki brennt okkur allt of mikið á því að einn aðili geti eignast ráðandi hlut í viðskiptabanka til þess að við megum nokkru sinni endurtaka þau mistök og selja þessa banka þannig að (Forseti hringir.) einn aðili geti gert þá að sinni eign.