144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hámarkseignarhlut einstakra aðila í viðskiptabönkunum finnst mér þetta áhugaverð ábending frá þingmanninum. Ég hef svo sem oft rætt um það að mér finnist þetta koma mjög til greina, að horfa til fordæma annars staðar frá um það að menn megi ekki verða of stórir. Og kannski á þetta sérstaklega við á meðan við erum með viðskiptabanka sem jafnframt geta verið fjárfestingarbankar.

Varðandi einstaka rekstrarákvarðanir getum við að sjálfsögðu gagnrýnt það sem er að gerast í fjármálakerfinu, að sjálfsögðu er Landsbankinn ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en aðrir bankar sem ríkið á eignarhlut í. En þetta snýst ekki aðeins um hina almennu umræðu um það hvort þingmenn eru sáttir eða ósáttir við einstakar ákvarðanir. Þetta snýst um það hvort menn vilja ganga skrefinu lengra og vilja rukka fjármálaráðherrann um svör við því hver afstaða hans er og hvort hann hyggist ekki beita sér fyrir því að sjónarmið hans og vilji þingsins nái fram að ganga við stjórn bankans. Ef menn eru að kalla eftir því eru menn(Forseti hringir.) að ýta frá sér armslengdarsjónarmiðum.